Fótbolti

Tuchel: Neymar er listamaður sem þarf sérmeðferð

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Neymar gekk til liðs við PSG fyrir tæpu ári síðan
Neymar gekk til liðs við PSG fyrir tæpu ári síðan Vísir/Gety
Nýr knattspyrnustjóri Paris Saint-Germain er hrifinn af stórstjörnunni Neymar og segir hann vera listamann sem þurfi að fá sérmeðferð.

Þjóðverjinn Thomas Tuchel tók við PSG fyrr í mánuðinum og hann ræddi við fjölmiðla í dag í fyrsta skipti síðan hann tók við.

„Listamenn eru sérstakir leikmenn og það gefur auga leið að þeir þurfi sérstaka meðferð,“ sagði hinn 44 ára Tuchel.

„Ég hitti hann [Neymar] síðasta sunnudag og við áttum góðan fund. Hann er ótrúlegur leikmaður, einn sá besti í heimi.“

Neymar er dýrasti leikmaður sögunnar eftir 222 milljón evra félagsskipti hans frá Barcelona til PSG síðasta sumar. Hann er sagður óánægður í París og orðrómar eru um að hann sé á leið til Real Madríd.

„Ef við getum fundið leið til þess að byggja liðið upp í kringum hann svo hann geti látið hæfileika sína skína þá erum við með lykilmann til þess að vinna okkar leiki,“ sagði Tuchel.

Brasilíumaðurinn hefur ekki spilað fótbolta síðan í febrúar þegar hann fótbrotnaði. Þrátt fyrir það var hann valinn leikmaður ársins í Frakklandi og var valinn í lokahóp Brasilíu fyrir HM í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×