Innlent

Kærðu 101 ökumann fyrir of hraðan akstur um helgina

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
101 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra um helgina.
101 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra um helgina. VÍSIR/VILHELM
Það var mikið að gera hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra síðustu daga. Um liðna helgi var gott veður í umdæminu og var mikil umferð enda vetrarfrí víða í skólum. Mikið var um umferðarmál og voru 101 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra um helgina.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var sá sem ók hraðast mældur á 151 kílómetra hraða á klukkustund í Blönduhlíð í Skagafirði, þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.

Alls hafa verið kærð það sem af er þessu ári 466 umferðarlagabrot í umdæminu, þar af 392 mál vegna hraðaksturs. Framundan hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra er öflugt umferðareftirlit og biður lögreglan ökumenn að virða hámarkshraða á vegum og sýna tillitssemi í umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×