Lífið

Mamma vaknaði ekki 

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Ãsta Lovísa Jónsdóttir með sonum sínum, hetjunni Bjartmari og Bjarka, litla bróður hans. MYND/EYÞÓR
Ãsta Lovísa Jónsdóttir með sonum sínum, hetjunni Bjartmari og Bjarka, litla bróður hans. MYND/EYÞÓR
Bjartmar Örn Sigurjónsson var aðeins fimm ára þegar hann bjargaði móður sinni, Ástu Lovísu Jónsdóttur, úr hennar fyrsta flogakasti. Ásta segir heimasíma mikilvægt öryggistæki fyrir börnin. Hún segir sögu sína í tilefni 112-dagsins sem haldinn er í dag. Að þessu sinni er lögð áhersla á öryggi á heimilinu.

„Ég var að undirbúa háttatímann og man að ég settist í sófann með náttföt drengjanna en síðan ekki söguna meir fyrr en á sjúkrahúsinu,“ segir Ásta Lovísa sem fékk sitt fyrsta alflog að kvöldi dags 8. janúar í fyrra. 

„Maðurinn minn var nýfarinn til vinnu og við synir okkar, Bjartmar og Bjarki, þá fimm og eins árs, vorum ein heima. Bjartmar var að horfa á Simpsons og bað mig að hækka í sjónvarpinu en þegar ég svaraði engu leit hann á mig og sá að ég lá í sófanum skjálfandi og froðufellandi.“

Ásta segir Bjartmar vera barn sem hæglega hefði getað frosið í aðstæðum sem þessum en þess í stað gekk hann markvisst að útidyrunum til að sækja hjálp.

„Bjartmari hafði aldrei áður tekist að opna læsta útidyrahurðina hjálparlaust en hann náði því þarna og fór til nágranna okkar í kjallaranum sem voru blessunarlega heima, komu upp og hringdu á sjúkrabíl. Við búum í tvíbýli og Bjartmar þekkti því nágrannakonuna, Berglindi Ósk Ásmunds­dóttur, sem sagði hann hafa útskýrt rólega að mamma hans vaknaði ekki. Hann lýsti líka atburðarásinni vel fyrir sjúkraflutningamönnunum, að það hefði liðið yfir mig, ég hefði skolfið öll og hrist og að hvítt hefði komið út úr munni mínum, sem reyndist þeim mjög gagnlegt,“ útskýrir Ásta.

Heimilissími er öryggistæki

Bjartmar er nú sex ára skóladrengur en hafði fengið heimsókn frá slökkviliðinu í leikskólann og fræðslu um 112.

„Við foreldrarnir höfðum aldrei rætt við hann um hvernig ætti að bregðast við ef eitthvað kæmi fyrir heima og þyrfti að kalla á sjúkrabíl, lögreglu eða slökkvilið. Við höfðum hugsað okkur að kenna honum að hringja í 112 þegar hann byrjaði í grunnskóla og fá okkur þá heimasíma, sem er mikið öryggisatriði á heimilum ef vá ber að dyrum, því það er flókið fyrir barn að opna læstan gsm-síma og finna út úr því hvar á að hringja eftir mismunandi símategundum,“ segir Ásta.

Fyrsta verk þeirra hjóna var því að fá sér heimasíma.

„Við lærðum að seinka því ekki, keyptum síma með stóru letri fyrir sjónskerta og hengdum upp símanúmerið 112 til öryggis og leiðbeiningar fyrir börnin.“



Stolt og þakklát Bjartmari

Ásta Lovísa hafði þjáðst af þrálátum höfuðverk og taugakippum í andliti og handleggjum áður en hún fékk flogakastið. Hún er hjúkrunarfræðingur en grunaði ekki að einkennin tengdust flogaveiki. Við komuna á sjúkrahús fékk Ásta svo annað flogakast og var send í heilalínurit daginn eftir.

„Þar sást flogavirkni og nú er ég tæknilega greind með flogaveiki og er á flogaveikilyfjum sem hafa varnað því undanfarið ár að ég hafi fengið fleiri flog,“ útskýrir Ásta.

Hún segist innilega þakklát og stolt af Bjartmari að hafa brugðist svo skynsamlega við.

„Hann var ansi lítill að bjarga málum en stóð sig með prýði og hugrekki alla leið. Þetta tók mikið á hann fyrst á eftir, hann var hræddur um mömmu sína og passaði upp á mig öllum stundum; að ég yrði ekki ein heima og var rólegri ef hann var þó bara einn með mér, minnugur þess að hann hafði orðið til bjargar fyrr. Í dag talar hann orðið minna um þetta, er allur að jafna sig og sannarlega ánægður að hafa heimasímann til taks.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×