Yfirvöld í Sádi-Arabíu neita að hafa lekið skilaboðum Bezos til National Enquirer

Yfirvöld í Sádi-Arabíu neita því að hafa haft nokkuð að gera með það að skilaboðum og vandræðalegum myndum af Jeff Bezos, ríkasta manni heims, var lekið til bandaríska götublaðsins National Enquirer.
Utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, Adel al-Jubeir, mætti í viðtöl í Bandaríkjunum í gær og þvertók fyrir að yfirvöld í landinu hefðu eitthvað komið nálægt lekanum en um er að ræða textaskilaboð á milli Bezos og hjákonu hans Lauren Sánchez og vandræðalegar myndir af þeim tveimur.
„Þetta er eitthvað sem er á milli Bezos og blaðsins. Við höfðum ekkert að gera með þetta. Þetta hljómar eins og sápuópera í mínum eyrum,“ sagði al-Jubeir.
Sýni hvað ásakanir Bezos eru eldfimar
Að því er fram kemur í frétt Guardian sýnir það hversu eldfimar ásakanir Bezos hafa verið að háttsettur maður í ríkisstjórn Sádi-Arabíu sjái sig knúinn til þess að stíga fram og neita að haft nokkuð með lekann að gera.Bezos er stofnandi Amazon og eigandi bandaríska blaðsins Washington Post. Í bloggfærslu síðastliðinn fimmtudag sakaði hann National Enquirer um að hafa reynt að kúga sig til að hann myndi hætta rannsókn á því hvernig einkaskilaboðunum og myndunum var lekið til blaðsins.
Sjá einnig: Ríkasti maður heims sakar götublað um kúgun með vandræðalegum myndum
Sagði Bezos að blaðið hefði hótað því að birta kynferðislegar myndir af honum og Sánchez en National Enquirer er í eigu útgáfufyrirtækisins American Media Incorporated (AMI) undir stjórn David J. Pecker.
Í bloggfærslunni benti Bezos á náið samband Donald Trump, Bandaríkjaforseta, við AMI en milljarðamæringurinn hefur reglulega verið skotspónn forsetans. Þá benti Bezos einnig á samband AMI við ríkisstjórnina í Sádi-Arabíu.
Elkan Abramowitz, lögfræðingur AMI, neitaði einnig fyrir það í sjónvarpsviðtali í gær að Sádi-Arabía hefði eitthvað haft með lekann að gera.
National Enquirer hefði komist yfir efnið í gegnum heimildarmann en hann væri ekki pólitískur. Þá hefðu samningaviðræður AMI við Bezos nú ekkert að gera með kúgun eða hótanir.
Tengdar fréttir

Ríkasti maður heims sakar götublað um kúgun með vandræðalegum myndum
Jeff Bezos, eigandi Amazon og Washington Post, segir að forsvarsmenn stórs götublaðs sem tengist Trump forseta hafi hótað að birta af honum kynferðislegar myndir ef hann léti ekki af rannsókn á hvernig blaðið komst yfir smáskilaboð hans.