Erlent

Fjögurra barna mæður sleppi við greiðslu tekjuskatts

Atli Ísleifsson skrifar
Victor Orban hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ungverjalands frá 2010.
Victor Orban hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ungverjalands frá 2010. Getty
Victor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, hefur kynnt nýja áætlun ungverskra stjórnvalda sem ætlað er að bregðast við aukinni fólksfækkun í landinu. Samkvæmt áætluninni skulu konur sem eignast fjögur börn eða fleiri sleppa við greiðslu tekjuskatts til æviloka.

Orban sagði áætlunina ætlaða að tryggja framtíð Ungverjalands  án þess að þurfa að treysta á komu innflytjenda til landsins. Stjórn Orban hefur verið hörð í afstöðu sinni gegn komu flóttamanna til landsins, sér í lagi múslima.

Ungverjum hefur fækkað um 32 þúsund manns á ári á síðustu árum og hafa ungverskar konur eignast færri börn en meðaltal aðildarríkja ESB segir til um.

Áætlunin felur meðal annars í sér að ungum pörum verða boðin vaxtalaus lán upp að 10 milljónum ungverska fórinta, um 4,4 milljónum króna. Verður lánið afskrifað þegar þau hafa eignast þrjú börn.

„Þurfum ungversk börn“

Orban segir að „Vesturlönd“ hugsi á þann veg að svarið við fólksfækkuninni séu að fá fleiri innflytjendur til landsins. Ungverjar hugsi hins vegar á annan hátt. „Við þurfum ekki að svara fjöldanum. Við þurfum ungversk bör,“ segir Orban.

Ungverskar konur eignast nú að meðaltali 1,45 börn, en meðaltalið í ríkjum Evrópusambandsins er 1,58. Hlutfallið er hæst í Frakklandi, 1,96 börn, en lægst á Spáni, 1,33 börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×