Handbolti

Seinni bylgjan: Óþolandi að þurfa að horfa á svona menn sem virðast ekki nenna þessu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Viðureign Stjörnunnar og FH var til umfjöllunar í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport í gærkvöldi, eins og aðrir leikir síðustu umferðar í Olís-deild karla.

FH vann öruggan sigur á Stjörnunni, þrátt fyrir að fimm mikilvægir leikmenn væru fjarverandi. Þurftu þeir lítið að hafa fyrir sigrinum en frammistaða Stjörnumanna afar máttlaus.

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, var ósáttur við frammistöðu sinna manna eftir leik og óttaðist að liðið væri að sogast niður í fallbarátu.

Gunnar Berg Viktorsson þekkir vel til í Garðabænum og hann sagði frammistöðuna hafa verið arfaslaka í leiknum gegn FH.

„Stjarnan var ótrúlega léleg. Alveg ótrúlega staðir, það mætir enginn á boltann til að fara í árásina. Menn fá boltann alltaf í kyrrstöðu, stinga niður og leggja svo af stað,“ sagði hann meðal annars.

„Af hverju fær boltinn ekki að fljóta og menn reyna að finna færin? Þetta var ótrúlega lélegt.“

Sebastian Alexandersson tók undir þetta og bætti við: „Það eru vond skilaboð til annarra liða í deildinni að menn ætli að bakka þegar það er spilað aðeins fast á þá. Það eru ekki góð skilaboð.“

Gunnar Berg hélt svo áfram og sagði að karaktersleysi hefði einkennt Stjörnumenn í leiknum. „Hausinn er niður í bringu, það vantar allan kraft og samheldni í liðið. Þetta skín af þeim, algerlega. Það er óþolandi að þurfa að horfa upp á svona menn sem virðast ekki nenna þessu,“ sagði Gunnar Berg sem var ekki búinn.

„Maður spyr sig, æfðu þeir ekkert í fríinu [í janúar]. Hvaða hraði er á leiknum? Mér fannst þeir vera þreyttir eftir 5-10 mínútur,“ sagði hann.

Allt innslagið má sjá hér efst í fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×