Handbolti

Aron er orðinn aðstoðarþjálfari Hauka

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron á bekknum hjá Barein á HM.
Aron á bekknum hjá Barein á HM. vísir/getty
Vera Arons Kristjánssonar, fyrrum landsliðsþjálfara og þjálfara Hauka, á bekk Haukaliðsins í síðustu leikjum hefur vakið athygli.

Haukarnir hafa ekki sent frá sér neina fréttatilkynningu um breytta skipan í þjálfarateyminu en Aron er auðvitað að vinna fyrir Haukana sem framkvæmdastjóri íþrótta- og markaðsmála.

Maksim Akbachev hefur verið aðstoðarþjálfari Gunnars til þessa en hann er farinn í flugnám og getur því ekki sinnt aðstoðarþjálfarastarfinu eins og hann gerði áður. Það þurfti því liðsauka.

„Það var lögð smá pressa á mig að koma á bekkinn og vera með. Mér rann blóðið svolítið til skyldunnar að hjálpa til,“ segir Aron en þetta skref er stigið í fullu samstarfi við aðalþjálfara liðsins, Gunnar Magnússon.

„Gunni er vinur minn og það var hann sem vildi að ég kæmi inn og aðstoðaði ásamt stjórninni. Ég er alls ekkert að fara að taka við liðinu. Ég mæti á æfingar tvisvar í viku og svo í leikina.“

Aron segir að það megi titla hann sem aðstoðarþjálfara núna en Gunnar geri sér þó grein fyrir því að hann verði líklega aðeins háværari en aðstoðarþjálfarar eru oft.

„Ég get ekki bara setið á bekknum og þagað. Það er ekki minn stíll,“ segir Aron léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×