Skoðun

Múrinn um matarkörfuna

Þorbjörg Gunnlaugsdóttir skrifar
Það er sjarmi að búa í svo fámennu samfélagi að við spjöllum við kunningja þegar við kaupum í matinn og nikkum til granna við kassann. Návígið hefur gert að ég raða í körfuna eftir ákveðinni aðferðafræði. Matarkörfunni fylgir nefnilega alltaf einhver feimni, því matarkarfa segir ákveðna sögu. Ég fel dömubindin í körfunni. Reyndar líka Bingókúlurnar (undir salatpoka) þrátt fyrir að það teljist kannski ekki fréttnæmt að fertugar konur kaupi dömubindi og að það sé lógískt skynsömu fólki að konur kaupa dömubindi einmitt á sama tíma og þær kaupa súkkulaði. Ég reyni að líta aldrei ofan í körfur annarra, ekki frekar en ég myndi lesa dagbók þó hún stæði opin.

Matarkarfan segir ekki bara sögu okkar. Hún segir sögu um samfélagið. Rjómi og beikon rokselst. Allir með sómakennd fela brauð og ávexti í körfunni. Og svo segir ein matarkarfa í hverfisverslun á Íslandi sögu um pólitík. Íslenska matarkarfan kostar 40-67% meira en sama matarkarfa í höfuðborgum Norðurlandanna. Verðmunurinn felst að stórum hluta í innlendum landbúnaðarvörum. Ástæðan er pólitík, múrinn sem stjórnvöld hafa reist kringum matarkörfuna. Vernd landbúnaðar er hvergi meiri innan OECD og greinin er að hluta undanþegin samkeppnislögum. Hæstiréttur Bandaríkjanna rammaði inn mikilvægi samkeppnislaga með því að segja samkeppnislög hafa sömu þýðingu fyrir frjálsan markað og stjórnarskrána fyrir vernd mannréttinda. Múrinn um matarkörfuna hefur áhrif á lífskjör okkar, karfan okkar er dýrari og fábreyttari. Í því ljósi er merkilegt hvað stjórnvöld gera lítið til að vernda frelsi okkar þegar við kaupum í matinn. Það eru nefnilega mannréttindi í matarkörfunni.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×