Enski boltinn

Kostaði Manchester United þrjá milljarða að reka Mourinho

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho á fyrir salti í grautinn.
José Mourinho á fyrir salti í grautinn. vísir/getty
Manchester United borgaði José Mourinho og starfsliði hans samtals 19,6 milljónir punda eða þrjá milljarða króna í starfslokagreiðslur þegar að Portúgalinn var rekinn frá United í desember.

Félagið sendi sjálft tilkynningu um þetta á breska miðla en Mourinho var látinn fara eftir 3-1 tap gegn Liverpool 16. desember og tók Ole Gunnar Solskjær við til bráðabirgða.

José Mourinho tók við Manchester United sumarið 2016 og vann bæði Evrópudeildina og enska bikarinn á fyrsta tímabilinu við stjórnvölinn. Hann skilaði liðinu svo í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð áður en fór að halla undan fæti í vetur.

Þegar að Mourinho var rekinn var hann búinn að safna 26 stigum í 17 leikjum. Liðið var búið að skora 19 mörk og fá á sig 19 eftir 3-1 tapið gegn Liverpool en það var í sjötta sæti, átta stigum á eftir Arsenal og ellefu stigum á eftir Chelsea sem var þá í fjórða sæti.

Undir stjórn Ole Gunnar Solskjær hefur United unnið níu af tíu leikjum sínum í deildinni og safnað 28 stigum af 30 mögulegum en ekkert lið hefur innbyrt fleiri stig á sama tíma.

United er búið að skora 26 mörk í leikjunum tíu og fá á sig aðeins sex og er komið í fjórða sætið, upp fyrir Chelsea en fjórða sætið er það síðasta sem gefur þátttökurétt í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×