Íslenski boltinn

Gulli Jóns: Var ansi nálægt maníu eftir síðasta tímabil

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gunnlaugur Jónsson var þjálfari ÍA áður en hann tók við Þrótti.
Gunnlaugur Jónsson var þjálfari ÍA áður en hann tók við Þrótti. vísir/ernir
Gunnlaugur Jónsson hætti sem þjálfari Þróttar á dögunum. Hann opinberaði í hlaðvarpsþættinum Miðjunni að hann hafi ákveðið að hætta því hann óttaðist um andlega heilsu sína.

Gunnlaugur sagðist hafa greinst með geðhvarfasýki þegar hann var 18 ára gamall, en bæði móðir hans og amma voru með sjúkdóminn. Síðasta ár var afar viðburðaríkt hjá Gunnlaugi, en hann tók við Þrótturum rétt fyrir byrjun síðasta tímabils í Inkasso deildinni.

„Þegar ég horfi á síðasta sumar held ég að það hafi verið ansi stutt í að sjúkdómurinn myndi taka yfir. Það er langt síðan ég hef verið á öðru eins flugi á öllum vígstöðvum,“ sagði Gunnlaugur.

„Ég var mjög þungur um haustið þegar tímabilinu lýkur, ég var alveg búinn á því. Þó ég hafi ekki verið lagður inn þá held ég að ég hafi verið ansi nálægt því að vera með maníu.“

„Verkefnin fram að tímabili eru þannig að ég þyrfti að vinna marga tíma á nóttunni til að halda í við. Ég get ekki boðið sjálfum mér og mínum nánustu upp á það.“

Miðjann er hlaðvarpsþáttur á vefsíðunni Fótbolta.net og þar var Gunnlaugur í ítarlegu viðtali sem hlusta má á hér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×