Menning

Ný al­þjóð­leg bók­mennta­verð­laun kennd við Hall­dór Lax­ness

Atli Ísleifsson skrifar
Halldór Laxness hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1955.
Halldór Laxness hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1955. Fréttablaðið/Úr einkasafni

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að veita tvær milljónir króna af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu til að standa straum af verðlaunafé vegna nýrra alþjóðlegra bókmenntaverðlauna sem kennd verða við Halldór Laxness.

Er þetta gert að tillögu forsætisráðherra og mennta- og menningamálaráðherra, en verðlaunin verða fyrst veitt í apríl næstkomandi.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að tilefnið sé ekki síst það að hundrað ár séu nú liðin frá því að Halldór Laxness gaf út sína fyrstu skáldsögu, Barn náttúrunnar.

„Verðlaunin verða veitt virtum erlendum rithöfundi fyrir endurnýjun sagnalistar og afhent á Bókmenntahátíð í Reykjavík, nú fyrst í apríl 2019 en síðan annað hvert ár eða árin 2021, 2023, 2025 og 2027.

Forsætisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðherra, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Forlagið, sem er útgefandi verka Halldórs Laxness, og Gljúfrasteinn munu standa að hinum alþjóðlegu bókmenntaverðlaunum. Þá verður valnefnd skipuð einum fulltrúa forsætisráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Íslandsstofu, einum fulltrúa Bókmenntahátíðar, Forlagsins og Gljúfrasteins og þeim höfundi sem síðast hlaut verðlaunin. Ný nefnd verður skipuð í kjölfar hverrar Bókmenntahátíðar og val hennar mun liggja fyrir sex mánuðum fyrir afhendingu,“ segir í tilkynningunni.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×