Erlent

Tveir látnir eftir skjálfta í Chile

Atli Ísleifsson skrifar
Ströndin nokkru suður af hafnarborginni Coquimbo í Chile.
Ströndin nokkru suður af hafnarborginni Coquimbo í Chile. Getty
Skjálfti af stærðinni 6,7 reið yfir í Chile í gærkvöldi. Tveir eru sagðir hafa látist eftir að hafa fengið hjartaáfall eftir að skjálftinn hófst og eru þúsundir heimila nú án rafmagns.

Skjálftinn varð klukkan 22:32 í gærkvöldi að staðartíma, nokkru suður af hafnarborginni Coquimbo í landinu miðju.

Bandaríska jarðvísindastofnunin (USGS) greinir frá því að skjálftinn hafi orðið á um 53 kílómetra dýpi. Vel fannst fyrir skjálftanum í höfuðborginni Santiago og í Valparaiso.

Erlendir fjölmiðlar hafa eftir lögreglu í Chile að eldri kona og eldri maður í Coquimbo hafi fengið hjartaáfall í kjölfar skjálftans og látist.

Ekki var gefin út nein formleg flóðbylgjuviðvörun, en íbúar meðfram ströndinni milli Coquimbo og Serena leituðu margir inn til landsins til öryggis.

Tugir fórust eftir að flóðbylgja skall á svæðið eftir skjálfta árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×