Íslenski boltinn

Segja Hannes búinn að semja við Val

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hannes Þór Halldórsson
Hannes Þór Halldórsson vísir/vilhelm
Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson er búinn að samþykkja tilboð frá Íslandsmeisturum Vals samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Hannes er samningsbundinn aserska félaginu Qarabag til sumarsins 2020 en hann hefur ekki fengið stöðugan spilatíma þar og vill leita á önnur mið.

Umboðsmaður Hannesar, Ólafur Garðarsson, staðfesti við Fréttablaðið að Hannes hafi heyrt frá félögum bæði hér á landi og erlendis.

„Það er ekki komið svo langt að Hannes sé að semja við Val. Hans staða gæti breyst á næstu dögum og mánuðum, það er áhugi frá Svíþjóð, Noregi og fleiri löndum en hann er samningsbundinn Qarabag í átján mánuði í viðbót og það er talsvert sem þarf að gerast til þess að hann fái að fara,“ er haft eftir Ólafi.

Ólafur segir Hannes ekki vera búinn að skrifa undir neitt en Fréttablaðið fullyrðir að hann sé búinn að samþykkja tilboð Valsmanna. Þeir segja að Hannes hafi valið Val fram yfir KR þar sem Íslandsmeistararnir gátu boðið betri samning. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×