Viðskipti innlent

Ís­lenskt fjár­tækni­fyrir­tæki fær tveggja milljóna dollara fjár­festingu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þeir Hjörtur Hjartarson, Sveinn Valfells, Jón Helgi Egilsson og Gísli Kristjánsson stofnuðu Monerium árið 2016.
Þeir Hjörtur Hjartarson, Sveinn Valfells, Jón Helgi Egilsson og Gísli Kristjánsson stofnuðu Monerium árið 2016. monerium
Tilkynnt var um það í dag að íslenska fjártæknifyrirtækið Monerium, sem þróar lausnir og þjónustur sem nýta bálkakeðjur (e. blockchain) til að stunda hefðbundna fjármálaþjónustu, hefði hlotið tveggja milljóna dollara fjárfestingu, eða sem samsvarar um 240 milljónum króna á gengi dagsins í dag.

Fjárfestarnir eru ConsenSys, Crowberry Capital, eignarahaldsfélagið Hof auk nokkurra einstaklinga. ConsenSys er bandarískt fyrirtæki og er leiðandi á sviði bálkakeðja á heimsvísu að sögn Sveins Valfells, forstjóra og eins af stofnendum Monerium.  

Flestir tengja bálkakeðjur við rafmyntir á borð við Bitcoin. Spurður hvort að um sé þá að ræða hefðbundna fjármálaþjónustu með slíkum myntum segir Sveinn svo ekki vera.

„Nei, þetta er alveg ótengt rafmyntum. Bálkakeðjur eru þannig úr garði gerðar að þær má nýta til að stunda aðra þjónustu, það er að segja þjónustu sem er ótengd rafmyntum en það er mjög nýtt af nálinni að gera það. Við erum eiginlega að ryðja brautina með það í heiminum og þess vegna höfum við fengið þennan stuðning og viðurkenningu frá ConsenSys. Það er alveg nýtt af nálinni að veita hefðbundna fjármálaþjónustu með bálkakeðjum, ótengt rafmyntum, og það er það sem við erum að gera,“ segir Sveinn.

Hann segir fjármagnið nýtast við áframhaldandi þróun og vöxt fyrirtækisins og að í fjárfestingunni felist mikil viðurkenning á þeim árangri sem Monerium hefur nú þegar náð sem og framtíðarmöguleikum fyrirtækisins. Hefur Monerium sótt um að fá að stunda leyfisskylda starfsemi sem fjármálafyrirtæki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×