Erlent

182 handteknir vegna hanaats á Spáni

Atli Ísleifsson skrifar
Hanaat hefur lengi notið ákveðinna vinsælda á ákveðnum stöðum í heiminum.
Hanaat hefur lengi notið ákveðinna vinsælda á ákveðnum stöðum í heiminum. Getty
Lögregla á Spáni handtók um helgina 182 manns í tengslum við aðgerð sem beindist að ólöglegri keppni í hanaati. Þá voru um hundrað hanar, marijúanaplöntur og um 300 þúsund evrur, um 42 milljónir króna, gerð upptæk í aðgerðinni.

Keppnin fór fram í borginni Sangonera la Verde í suðausturhluta landsins. Hinir handteknu gætu átt yfir höfði sér allt að 18 mánaða fangelsi fyrir dýraníð.

Hanaat hefur lengi notið ákveðinna vinsælda á ákveðnum stöðum í heiminum. Hanarnir sem ræktaðir eru til að keppa eru vanalega sprautaðir með sterum og þjálfaðir til að sýna af sér árásargirni. Þá eru oft festir hnífar eða gaddar á fótum dýranna til að ergja þau enn frekar þegar komið er í keppni.

Sá hani sem lifir af er krýndur sigurvegari og tíðkast á slíkum keppnum að áhorfendur leggi undir pening og giski á sigurvegara.

Hanaat er ólöglegt á Spáni en er engu að síður stundað í ákveðnum héruðum. Í frétt Guardian segir að lögregla hafi handtekið um hundrað manns á sama stað vegna hanaats árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×