Erlent

Einn látinn í sprengjuárás við hótel í Naíróbí

Atli Ísleifsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Dusit-hótelið er að finna í Westland-hverfi borgarinnar.
Dusit-hótelið er að finna í Westland-hverfi borgarinnar. AP
Að minnsta kost einn lést og fjórir særðust í árás var gerð á hóteli í kenísku höfuðborginni Naíróbí upp úr hádegi. Íslömsku hryðjuverkasamtökin al-Shabaab hafa lýst yfir ábyrgð á ódæðinu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

BBC segir frá því að tvær sprengjur hafi sprungið við DusitD2-hótelið í Westland-hverfinu um klukkan 15:00 að staðartíma og í kjölfarið hafi heyrst skothríð. Banka er einnig að finna í byggingunni.

Fjölmennt lið lögreglu er á svæðinu og hefur sést til nokkurra alelda bíla. Þá hafa særðir flúið bygginguna og aðrir verið fluttir á brott á sjúkrabörum.

Fréttamaður BBC segir að talað sé um að árásarmennirnir séu fjórir. Búið er að rýma nálægan skóla.

Sómölsku hryðjuverkasamtökin al-Shabaab hafa staðið fyrir fjölda árása í Kenía undanfarin ár. Tugir voru myrtir í árás samtakanna á verslunarmiðstöð árið 2013 og þá drápu liðsmenn samtakanna 150 námsmenn við háskóla árið 2015.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×