Fótbolti

Tíu menn Vieira héldu út gegn Henry

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þrátt fyrir að vera manni fleiri hálfan leikinn náðu leikmenn Mónakó ekki að sækja sigur
Þrátt fyrir að vera manni fleiri hálfan leikinn náðu leikmenn Mónakó ekki að sækja sigur vísir/getty
Tíu menn Nice misnotuðu vítaspyrnu sem hefði séð þá taka sigurinn gegn Mónakó í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Fyrrum samherjarnir hjá Arsenal, Patrick Vieira og Thierry Henry, mættust á hliðarlínunni.

Það voru gestirnir frá Nice undir stjórn Vieira sem skoruðu fyrsta mark leiksins. Youssef Ait Bennasser gaf boltann klaufalega frá sér á miðjunni. Allan Saint-Maximin komst í boltann, keyrði upp að markinu og kláraði framhjá Diego Benaglio í marki Mónakó.

Á síðustu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks var Ihsan Sacko sendur í sturtu með rautt spjald eftir aðkomu myndbandsdómara. Boltinn skoppaði í grasinu á milli Sacko og Benjamin Henrichs. Sacko reynir að taka boltann, nær honum ekki heldur fer beint með takkana í sköflunginn á Henrichs.

Strax á 49. mínútu nýttu leikmenn sér liðsmuninn þegar Benoit Badiashile jafnaði metinn með skalla eftir hornspyrnu. Markvörður Nice Walter Benitez náði að skófla boltanum út úr markinu en marklínutæknin dæmdi boltann inni.

Á 77. mínútu dæmdi dómari leiksins vítaspyrnu á Mónakó. Myndbandsdómarinn var ekki alveg viss, þeir horfðu á atvikið og héldu sér við dóminn. Youcef Atal fór þó frekar auðveldlega niður undir pressu frá Badiashile og því var það kannski ákveðið jafnrétti að Benaglio hafi varið vítaspyrnuna frá Saint-Maximin.

Mónakó var hársbreidd frá því að taka stigin þrjú þegar Radamel Falcao átti gott skot að marki en Benitez varði skotið í stöngina og út.

Fleiri urðu tækifærin ekki og jafntefli niðurstaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×