Erlent

Falsfréttum dreift í Washington D.C.

Andri Eysteinsson skrifar
Falska blaðið er nauðalíkt hinni sönnu útgáfu Washington Post.
Falska blaðið er nauðalíkt hinni sönnu útgáfu Washington Post. Twitter/Ian Kullgren
Falskri útgáfu Washington Post var í dag dreift víða um Washington D.C., höfuðborg Bandaríkjanna.

Blaðið var dagsett 1. maí 2019 og var forsíðufrétt blaðsins sú að forseti Bandaríkjanna, Donald Trump hefði sagt af sér embætti forseta og hafi yfirgefið Hvíta húsið. Blaðið sem var nauðalíkt ósviknu Washington Post blaði var fullt af fréttum sem gagnrýndu forsetann. Washington Post greinir frá þessu í dag.

Falsfréttirnar birtust ekki bara á blaði heldur líka á vefsíðu sem átti að líkjast vefsíðu Washington Post. Hið sanna Washington Post birti yfirlýsingu á Twitter síðu sinni þar sem greint var frá því að blaðið sem væri í dreifingu væri falskt. Hópur aktívista sem kallar sig Yes Men hafa stigið fram og sagt verknaðinn vera á þeirra vegum.

Aðalfréttin í fölsku útgáfu Washington Post fjallaði, eins og áður sagði, um afsögn og flótta Donald Trump úr forsetaembættinu. Trump átti að hafa skilið eftir afsagnarbréf á servíettu í skrifstofu forsetans. Samkvæmt fréttinni hélt Trump því næst rakleitt til borgarinnar Yalta á Krímskaga.

Samkvæmt Yes Men hópnum kostaði aðgerðin um 40.000 dali, 25.000 eintök voru prentuð en eingöngu var um 10.000 eintökum dreift. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fölskum dagblöðum er dreift af hópnum en sama var upp á teningunum árið 2008, skömmu eftir að Barack Obama var kosinn forseti. Þá var fölskum New York Times blöðum dreift.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×