Handbolti

Arnór: Elska að spila fyrir Ísland

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson var valinn maður leiksins annan leikinn í röð er Ísland tryggði sér sæti í milliriðlum á HM í handbolta með frábærum tveggja marka sigri á Makedóníu.

Arnór var markahæstur íslenska liðsins en hann skoraði tíu mörk í leiknum og var lang markahæsti maður liðsins. Hann var glaður í bragði er hann ræddi við Tómas Þór Þórðarson í leikslok.

„Mér fannst þetta góður sigur. Mér fannst við vera á fullu allan leikinn,“ sagði Arnór og hélt áfram:

„Auðvitað er erfitt að spila á móti þeim svona sjö á sex. Ég veit ekki hvað þeir eru þungir þarna á línunni. Þeir eru erfiðir viðureignar.“

„Við töluðum um það í hálfleik að þeir myndu brotna og gefast upp. Mér fannst þeir vera þreyttir. Þeir gátu lítið hlaupið síðustu sjö mínúturnar.“

Arnór segir að auk þess að hafa rætt hvernig Makedónía spilar sjö á móti sex hafi liðið einnig rætt það að það þyrfti að halda kúlinu í dag og það gerðu strákarnir.

„Við töluðum um það fyrir leikinn að við þyrftum að vera kúl í hausnum. Mér fannst allir kúl og flottir á því í dag. Ég er stoltur af þessu og það er frábært að vera komnir í milliriðil.“

Það var ljóst að þetta þýddi mikið fyrir Arnór en hann var einn af fremstu mönnum Íslands í fagnaðarlátunum og var kominn hálfa leiðina upp í stúku.

„Ég elska að spila fyrir Ísland. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri,“ sagði þessi frábæri hornamaður að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×