Erlent

Loka á netið á ný í Simbabve

Atli Ísleifsson skrifar
Frá höfuðboginni Harare í Simbabve.
Frá höfuðboginni Harare í Simbabve. Getty
Stærsta fjarskiptafyrirtæki Simbabve, Econet Wireless, hefur tilkynnt að yfirvöld þar í landi hafi fyrirskipað að tímabundið loka fyrir internetið í landinu. Það sé vegna þeirrar fjölmennu mótmælaöldu sem geisað hafi landinu í kjölfar mikillar hækkunar á eldsneytisverði.

Fyrr í vikunni var sömuleiðis lokað fyrir netið, en stjórnarandstæðingar segja stjórnvöld grípa til þessara aðgerða til að koma í veg fyrir dreifingu á myndum af harkalegri framgöngu lögreglu í mótmælunum.

„Við höfum fengið nýja tilskipun um algjöra lokun á netinu,“ segir í yfirlýsingu frá Econet Wireless. Lögmenn fyrirtækisins telji fyrirtækið skyldugt að fylgja þessu á meðan dómstólar kveði upp úr um lögmæti hennar.

Talsmaður yfirvalda segir að þrír hafi látið lífið í mótmælum síðustu daga. Þau brutust út í kjölfar ákvörðunar stjórnvalda að hækka verð á eldsneyti um 150 prósent.

Mannréttindasamtök á svæðinu segja fjölda látinna í raun vera mun hærri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×