Jota með þrennu í mögnuðum sigri Wolves

Dagur Lárusson skrifar
Maður leiksins.
Maður leiksins. vísir/getty
Diogo Jota var sannkölluð hetja fyrir Wolves í dag þar sem hann skoraði þrennu og eitt af þeim mörkum var sigurmarkið í uppbótartíma

 

Það voru liðsmenn Wolves sem byrjuðu leikinn mikið betur og komust yfir snemma leiks með marki frá Diogo Jota en það var Moutinho sem gaf frábæra fyrirgjöf á hann.

 

Staðan var síðan orðin 2-0 aðeins nokkrum mínútum seinna en þá skoraði Ryan Bennet með skalla eftir góða hornspyrnu Moutinho. Eftir þetta mark virtust liðsmenn Leicester vakna og áttu nokkur góð færi en náðu þó ekki að nýta sér þau og var staðan 2-0 í hálfleiknum.

 

Claude Puel lét sína menn að öllum líkindum heyra það miðað við hvernig liðsmenn Leicester mættu til leiks í seinni hálfleikinn en Demarai Grey minnkaði muninn fyrir gestina strax á 47. mínútu. Aðeins nokkrum mínútum seinna jafnaði Harvey Barnes síðan metin fyrir Leicester.

 

Eftir jöfnunarmarkið var mikið jafnræði með liðunum og átti bæði lið sín færi. Leicester var meira með boltann og átti Wolves því nokkrar góðar skyndisóknir. Þeir náðu að nýta sér eina slíka á 64. mínútu þegar Ruben Neves gaf frábæra sendingu inn fyrir vörn Leicester þar sem Jota var á hlaupum, tók boltann niður og setti hann framhjá Dananum í marki Leicester.

 

Liðsmenn Leicester reyndu allt sem þeir gátu að jafna metin og áttu mikið af fínum færum til þess að gera það. Það var hinsvegar ekki fyrr en á 87. mínútu þar sem Wes Morgan jafnaði metin eftir frábæra aukaspyrnu frá James Maddison.

 

Allt stefndi í að jafntefli yrðu lokatölur en maður leiksins, Diogo Jota, var alls ekki á þeim buxunum. Hann fékk frábæra sendingu frá Raul Jiminez inná teig í uppbótartíma og skoraði sigurmarkið.

 

Sigur Wolves því staðreynd í mögnuðum knattspyrnuleik. Eftir leikinn er Wolves í áttunda sæti með 32 stig en Leicester er sæti neðar með 31 stig.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira