Handbolti

Arnór efstur á palli með tveimur stórstjörnum PSG-liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson.
Arnór Þór Gunnarsson. Getty/TF-Images
Aðeins einn leikmaður á heimsmeistaramótinu í handbolta skoraði fleiri mörk en Arnór Þór Gunnarsson í riðlakeppni HM 2019.

Arnór skoraði 31 mark í fimm leikjum Íslands í riðlakeppninni sem gera 6,2 mörk að meðaltali í leik.

Það er aðeins danska stórstjarnan Mikkel Hansen sem skoraði meiri. Hansen skoraði 35 mörk í fimm leikjum Dana þar af tólf þeirra á móti Norðmönnum í toppslag riðilsins í gær.

Mikkel Hansen spilar með franska stórliðinu Paris Saint-Germain og það gerir líka maðurinn sem deilir öðru sætinu með Arnóri. Það er þýski vinstri hornamaðurinn Uwe Gensheimer.

Arnór er með mun betri skotnýtingu en bæði Mikkel Hansen og Uwe Gensheimer. Arnór gefur nýtt 31 af 37 skotum sínum sem þýðir 84 prósent skotnýtingu. Uwe Gensheimer hefur nýtt 76 prósent skota sinna og Mikkel Hansen er með 74 prósent skotnýtingu.

Í 4. til 7. sæti koma síðan fjórir leikmenn en það eru Youssef Benali frá Katar, Timur Dibirov frá Rússlandi, Erwin Feuchtmann frá Síle og Kiril Lazarov frá Makedóníu.

Kiril Lazarov var sjóðheitur í fyrri hálfleiknum á móti Íslandi en í þeim síðari slokknaði alveg á honum. Það gaf bæði íslenska liðinu tækifæri að vinna leikinn sem og Arnóri að komast fram úr honum á markalistanum.

Næsti Íslendingur á listanum er Aron Pálmarsson í 34. sæti með 19 mörk en Ólafur Guðmundsson er svo í 69. sæti með 15 mörk, Elvar Örn Jónsson er í 81. sæti með 14 mörk og Bjarki Már Elísson er í 90. sæti með 13 mörk.

Arnór Þór Gunnarsson skorar eitt af tíu mörkum sínum á móti Makedóníu.Getty/TF-Images
Flest mörk í riðlakeppni HM í handbolti 2019:

1. Mikkel Hansen, Danmörku 35/12

2. Arnór Þór Gunnarsson, Íslandi 31/12

2. Uwe Gensheimer, Þýskalandi 31/14

4. Youssef Benali, Katar 30/6

4. Timur Dibirov, Rússlandi 30/11

4. Erwin Feuchtmann, Síle 30/7

4. Kiril Lazarov, Makedóníu 30/9

8. Máté Lékai, Ungverjalandi 27

8. Robert Weber, Austurríki 27/11

10. Mahdi Al-Salem 26/3

10. Ferrán Solé, Spáni 26/10

34. Aron Pálmarsson, Íslandi 19

69. Ólafur Guðmundsson, Íslandi 15

81. Elvar Örn Jónsson, Íslandi 14

90. Bjarki Már Elísson, Íslandi 13


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×