Handbolti

Geir skilur fjölskylduna eftir í Þýskalandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Sveinsson við undirritun samningsins.
Geir Sveinsson við undirritun samningsins. Mynd/akureyri-hand.is
Geir Sveinsson tók um áramótin við sem þjálfari Akureyrarliðsins í Olís deild karla í handbolta en hann fór yfir stöðuna í viðtali á heimasíðu félagsins.

„Ég var ekki að þjálfa og mér fannst þetta áhugaverð áskorun. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér í nokkra daga ákvað ég að taka henni,“ sagði Geir Sveinsson.

Geir tekur við starfi Sverre Andreas Jakobssonar sem hafði tekist að koma Akureyri upp úr fallsæti deildarinnar eftir slæma byrjun á tímabilinu. Akureyri er í 10. sæti Olís deildar karla, tveimur stigum á eftir KA (9. sæti) og einu stigi á undan Fram (11. sæti).





Geir Sveinsson var búsettur erlendis en hann flytur frá Þýskalandi til Akureyrar. Geir á stóra fjölskyldu en hann kemur bara einn til Íslands.

„Það voru fyrst og fremst fjölskylduástæður sem ég spáði í fram og til baka. Við erum búsett í Þýskalandi og það þurfti að ákveða hvort við ætluðum öll að fara eða hvað. Við ákváðum að fjölskyldan yrði áfram í Þýskalandi þennan vetur vegna skólagöngu barnanna. Ég kem því einn til Akureyrar og tek þetta að mér í nokkra mánuði með fjölskylduna búsetta erlendis. Svo sjáum við hvernig þetta þróast og hvernig næstu skref verða,“ segir Geir.

Geir hefur ekki þjálfað í efstu deild á Íslandi í langan tíma en kveðst þó hafa fylgst vel með undanfarin ár. Geir var landsliðsþjálfari Íslands frá 2016 til 2018.

„Ég fylgdist vel með deildinni sem landsliðsþjálfari, starfs míns vegna og er því vel kunnugur henni. Það eru ekki það miklar breytingar á leikmönnum í deildinni frá því ég var að þjálfa landsliðið. Ég hef fylgst með í vetur og nú sest maður fyrir framan tölvuna og skoðar það efni sem maður getur náð sér í til að átta sig á deildinni. Þetta er mjög spennandi og skemmtileg deild. Það er mikið um að vera og mikill uppgangur,“ segir Geir en hans sín á handboltann er ekki mjög flókin.

„Handbolti er frekar einfaldur, hann gengur út á að vinna leiki og það er það sem við viljum gera. Vonandi göngum við öll í sömu átt; stuðningsmenn, þjálfarar, leikmenn og stjórn við að gera þetta sem best,“ segir Geir en það má lesa allt viðtalið við hann hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×