Íslenski boltinn

Gary Martin í stað Patrick Pedersen hjá Íslandsmeisturunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Martin er á leiðinni til Vals.
Gary Martin er á leiðinni til Vals. vísir/ernir
Gary Martin verður kynntur sem nýr leikmaður Vals í dag en Hlíðarendafélagið hefur boðað til blaðamannanfundar seinni partinn.

Fótbolti.net hefur heimildir fyrir því að Íslandsmeistarar Vals munu á þessum blaðamannafundi einmitt kynna Gary Martin sem nýjan leikmann félagsins. Valsmenn ætla að kynna þrjá nýja leikmenn á fundinum en hinir eru væntanlega Garðar Gunnlaugsson og Kaj Leo í Bartalsstovu.

Gary Martin mun þar með fylla í fótspor danska framherjans Patrick Pedersen, sem var markakóngur Pepsi deildar karla í fyrra með 17 mörk. Pedersen samdi við móldóvska liðið FC Sheriff í lok síðasta árs.

Gary Martin og Patrick Pedersen eiga það sameiginlegt að hafa orðið markakóngar Pepsi deildarinnar, Martin sumarið 2014 en Pedersen 2015 og 2018.

Tobias Thomsen hafði einnig yfirgefið Val en Valur er einnig búið að gera samning við Skagamanninn Garðar Gunnlaugsson. Garða hefur einnig orðið markakóngur Pepsi-deildarinnar (2016).

Gary Martin hefur spilað á Íslandi með ÍA, KR og Víkingum og Valur verður því fjórða íslenska félagið hans. Hann spilaði síðast í deildinni 2016 og skoraði þá 5 mörk í 13 leikjum með Víkingum.

Gary Martin er orðinn 28 ára gamall en hann lék fyrst hér á landi sumarið 2010 með ÍA í 1. deild karla. Martin hefur alls skorað 43 mörk í 93 leikjum í úrvalsdeild karla á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×