Körfubolti

Teitur fagnaði hreyfingu Elvars eins og hann hefði skorað mark í fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson.
Elvar Már Friðriksson. Mynd/S2 Sport
Ein stjarna skein skærast á gólfinu í Keflavík í gær þegar Njarðvíkingar unnu Reykjanesbæjarslaginn og komust fyrir vikið einir í toppsæti Domino´s deildar karla í körfubolta.

Körfuboltakvöld fór yfir frammistöðu hins smáa en knáa bakvarðar Njarðvíkurliðsins Elvars Más Friðrikssonar sem skoraði 32 stig í leiknum og leiddi sitt lið til sigurs.

Elvar var einnig með 12 fráköst, 3 stoðsendingar og hitti úr 60 prósent skota sinna í leiknum. Hann skilaði 33 framlagsstigum til Njarðvíkurliðsins. Njarðvíkingar hafa ekki tapað með Elvar innanborðs í deildinni í vetur.

„Það var unun að horfa á hvernig hann spilaði annan leikhlutann, bæði hvernig hann fór að körfunni og hvernig hann setti niður þrista eða var að finna leikmenn. Hann er einnig orðinn gríðarlega öflugur að klára hraðaupphlaupin sín,“ sagði Hermann Hauksson, einn spekinganna í Körfuboltakvöldi.

Körfuboltakvöldið sýndi um leið nokkrar frábærar körfur frá Elvari í leiknum og þar á meðal eina þar sem hann setti allt Keflavíkurliðið niður á hælana áður en hann skoraði úr laglegu sniðskoti.

„Teitur (Örlygsson) fagnaði þessari hreyfingu eins og hann hefði skorað mark í fótbolta,“ sagði Hermann en Teitur Örlysson er eins og flestir vita dáðasti sonur Njarðvíkur og mikill stuðningsmaður liðsins sem hann vann tíu Íslandsmeistaratitla með.

„Hann skorar allar stóru körfurnar og á öll stóru „playin“. Svo fyrir utan það sem hann er að gera í sóknarleiknum þá er hann einnig frábær varnarmaður,“ sagði Hermann.

„Tölurnar hans eru keimlíkar tölurnar hans Craion en þar erum við að tala um senter og leikstjórnanda,“ sagði Teitur Örlygsson en bandaríski miðherji Keflvíkinga var með 34 stig, 11 fráköst og 4 stoðsendingar á móti 32 stigum, 12 fráköstum og 3 stoðsendingum frá Elvari.

Það má finna allt innslagið um Elvar í myndbandinu hér fyrir neðan.



Klippa: Frábær frammistaða Elvars á móti Keflavík



Fleiri fréttir

Sjá meira


×