Enski boltinn

Benitez: Þurfum VAR núna strax

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rafael Benitez
Rafael Benitez vísir/getty
Rafael Benitez vill fá myndbandsdómgæslu inn í ensku úrvalsdeildina strax í dag og telur að það hefði gjörbreytt leik Newcastle og Wolves í gær.

Newcastle tapaði leiknum 1-2 eftir sigurmark Matt Doherty í uppbótartíma. Newcastle þurfti að spila á 10 mönnum síðasta hálftímann eftir að DeAndre Yedlin var rekinn út af með rautt spjald.

„Við þurfum VAR núna strax,“ sagði Benitez eftir leikinn.

„Í þessum leik hefði það breytt öllu. Við vorum að gera nóg til þess að stjórna leiknum, hvernig er hægt að útskýra þessar ákvarðanir fyrir stuðningsmönnum okkar?“



Klippa: FT Newcastle 1 - 2 Wolves


Yedlin felldi Diogo Jota fyrir utan vítateig Newcastle og fékk rauða spjaldið fyrir. Benitez var mjög ósáttur við þá ákvörðun Mike Dean dómara.

„Boltinn er langt frá markinu og það voru aðrir menn nógu nálægt til þess að þetta væri ekki rautt. Er hægt að fullyrða það að leikmaðurinn geti skorað frá vítateigshorninu í hvert skipti? Þetta getur ekki verið rautt spjald,“ sagði Benitez.

Þá vildi Spánverjinn að Newcastle fengi vítaspyrnu þegar Willy Boly virtist fara með olnbogann í andlitið á Perez í vítateignum. Ekkert var dæmt.

Myndbandsdómgæsla verður notuð í ensku úrvalsdeildinni frá og með næsta tímabili en hún er komin inn í flestar deildir Evrópu og var upptöku hennar í Meistaradeildinni flýtt, þar mun notkun á VAR hefjast eftir áramót.



Klippa: Rafael Benitez Post Match Interview



Fleiri fréttir

Sjá meira


×