Erlent

Trump og Demókratar reyna að finna lausn á fjárlagadeilu

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Andrew Harnik
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og leiðtogar Demókrataflokksins vinna nú að því að komast hjá því að loka þurfi hluta opinberra stofnanna. Til þess þarf að samþykkja fjárlög og Trump vill ekki skrifa undir slík lög án þess að fá peninga til að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Demókratar, og margir þingmenn Repúblikanaflokksins, vilja það hins vegar ekki.

Verði ný lög ekki samþykkt fyrir 21. desember verður hluta stofnanna ríkisins lokað. Það hefði átt að gerast í byrjun mánaðarins en þingmenn komust að samkomulagi um að tryggja stofnunum þessum fjármagn tímabundið.

Nancy Pelosi og Chuck Schumer, leiðtogar þingflokka Demókrataflokksins, sendur frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem þau sögðu Repúblikana enn stjórna báðum deildum þingsins og Hvíta hússins. Þeir vissu vel að þrátt fyrir það væri ekki meirihluti fyrir byggingu veggjarins á þinginu og því ætti málið ekki að koma í veg fyrir samstarf flokkanna.

AP fréttaveitan segir leiðtoga Repúblikanaflokksins hafa sagt opinberlega að Trump sjálfur þyrfti að semja við Demókrata og viðurkenna þeir því að þeir geti ekki komið fjárlögum í gegnum þingið á atkvæðum eigin þingmanna.



Trump mun því funda með leiðtogum Demókrataflokksins á næstu dögum vegna stöðunnar. Forsetinn hefur farið mikinn á Twitter í dag og sagt að þau muni komast að samkomulagi og að veggurinn verði byggður.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×