Fótbolti

Klopp: UEFA hélt að þeir gætu haldið áfram með keppnina án Liverpool en svo er ekki

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hann brosti mikið í leikslok sá þýski.
Hann brosti mikið í leikslok sá þýski. vísir/getty
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, var heldur betur stoltur af sínum mönnum eftir frábæran 1-0 sigur gegn Napoli á heimavelli í Meistaradeildinni í kvöld.

Mark Mo Salah skaut Liverpool áfram í 16-liða úrslitin en sigurinn var ansi tæpur því í uppbótartíma fékk Napoli dauðafæri til að jafna metin. Þar bjargaði Alisson sínum mönnum.

„Vá. Þvílíkur leikur. Ég er ekki viss um að einhver þjálfari geti verið stoltari en ég er í kvöld,“ sagði Þjóðverjinn í samtali við BT Sport í leikslok og hélt áfram:

„Í dag fengum við tækifæri til að sýna betri frammistöðu en við gerðum á Ítalíu og drengirnir spiluðu stórkostlega. Pressan okkar skilaði sér í því að þeir þurftu að breyta um leikplan og þeir fundu engin svör.“

„Salah gerði frábært mark og ég skil ekki hvernig Alisson varði þetta lokaskot. Þetta var ótrúlegt. Við gátum skorað meira en síðasta færið hjá Mane hefði ekki haft nein áhrif. Þetta er Anfield.“

„UEFA hélt væntanlega að þeir gætu haldið áfram með keppnina án Liverpool en svo er ekki. Ekki strax að minnsta kosti. Ég sagði að ef við myndum detta út, þá væri það ekki vegna frammistöðunnar í kvöld heldur þegar við töpuðum í Napoli. Í kvöld áttum við þó skilið að vinna,“ sagði Klopp skælbrosandi. Eðlilega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×