Körfubolti

Leonard-lausir Raptors fóru létt með Golden State

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kyle Lowry setti 23 stig
Kyle Lowry setti 23 stig vísir/getty
Topplið Austurdeildar NBA deildarinnar í körfubolta Toronto Raptors átti ekki í neinum vandræðum við að vinna ríkjandi meistara Golden State Warriors á þeirra heimavelli í Oakland í nótt.

Aðalsóknarmaður Toronto í vetur, Kawhi Leonard, gat ekki tekið þátt í leiknum en það kom ekki að sök. Kyle Lowry skoraði 23 stig og gaf 12 stoðsendingar og Serge Ibaka bætti við 20 stigum í leiknum sem Raptors stjórnaði frá fyrstu mínútu.

Danny Green, Pascal Siakam og Fred VanVleet fóru allir í tveggja stiga tölu í liði Raptors sem vann leikinn 113-93. Toronto hefur nú unnið 23 leiki og tapað 7 og jöfnuðu með því bestu byrjun á tímabili í sögu liðsins.

Raptors vann einnig leik þessara liða í Toronto fyrr í vetur en þar var Golden State án bæði Stephen Curry og Draymond Green. Þeir voru hins vegar báðir með í þessum leik. Curry skoraði bara 10 stig, hitti þremur af 12 þriggja stiga körfum sínum. Green náði boltanum einu sinni í körfuna og allt Golden State liðið var með 23 prósenta þriggja stiga nýtingu, 6 af 26 skotum.



Í Charlotte fögnuðu heimamenn í Hornets flautuþrist Jeremy Lamb gegn Detroit Pistons aðeins of snemma því dómarar leiksins ákváðu að skoða hvort Hornets ætti að fá tæknivilu fyrir að hafa of marga leikmenn inn á vellinum í einu.

Karfan fékk hins vegar að standa og Charlotte fór með 108-107 sigur eftir að hafa verið 10 stigum undir seint í fjórða leikhluta.

Um leið og Lamb fagnaði sinni fyrstu flautukörfu í NBA deildinni flautuðu dómararnir og skoðuðu endursýningar af körfunni. Malik Monk og Bismack Biyombo höfðu hlaupið inn á völlinn, tilbúnir að fagna sigrinum ef boltinn færi ofan í körfuna. Tæknivilla var dæmd, Detroit fékk eitt vítaskot sem þeir skoruðu úr, en þristurinn hafði komið Hornets tveimur stigum yfir svo sigurinn var þeirra.

Þegar Monk snéri aftur á varamannabekkinn las eigandi Hornets, enginn annar en goðsögnin Michael Jordan, vel yfir hausamótunum á honum og sló hann svo tvisvar létt á hnakkann.



Anthony Davies var enn og aftur stjarnan í liði New Orleans Pelicans sem hafði betur gegn Oklahoma City Thunder. Davies setti 41 stig á næst bestu vörn deildarinnar, Boston Celtics, fyrir tveimur dögum og í nótt mætti hann bestu vörn deildarinnar.

Hann skoraði 44 stig á þá.

Davies skoraði úr 16 af 32 skotum sínum, hitti öllum 11 vítaskotum sínum og tók 18 fráköst í 118-114 sigri Pelicans.

Julius Randle bætti 22 stigum við og Jrue Holiday 20 svo aðal sóknarþrenning New Orleans skilaði 86 stigum.



Öll úrslit næturinnar:

Charlotte Hornets - Detroit Pistons 108-107

Cleveland Cavaliers - New York Knicks 113-106

Indiana Pacers - Milwaukee Bucks 113-97

Philadelphia 76ers - Brooklyn Nets 124-127

Washington Wizards - Boston Celtics 125-130

Memphis Grizzlies - Portland Trail Blazers 92-83

New Orleans Pelicans - Oklahoma City Thunder 118-114

Dallas Mavericks - Atlanta Hawks 114-107

Utah Jazz - Miami Heat 111-84

Sacramento Kins - Minnesota Timberwolves 141-130

Golden State Warriors - Toronto Raptors 93-113

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×