Enski boltinn

Velta því fyrir sér hvaða leikmenn Man. United myndu hjálpa Liverpool mest og öfugt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk.
Virgil van Dijk. Vísir/Getty
Topplið Liverpool og erkifjendur þeirra í Manchester United mætast í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi og margir bíða spenntir eftir þessum stórleik helgarinnar.

Knattspyrnuspekingar Sky Sports fengu það verkefni í tilefni af þessum leik á Anfield að meta það hvaða leikmenn úr Liverpool eða Manchester United myndu hjálpa hinu liðinu mest.

Spekingar Sky Sports voru þeir Paul Merson, Matt Le Tissier, Phil Thompson og Charlie Nicholas.





Paul Merson er á því að framherjinn Romelu Lukaku hjá Manchester United myndi hjálpa Liverpool mest af því að ef Liverpool klárar ekki titilinn á þessu tímabili þá sé það að hans mati vegna þess að þeir Roberto Firmino og Sadio Mane skori ekki nógu mikið við hlið Mohamed Salah.

Merson er síðan ekki í neinum vafa um að Manchester United myndi þiggja Virgil van Dijk með þökkum. Matt Le Tissier er sammála því en Le Tissier átti í erfiðleikum með að finna United-mann sem gæti hjálpað Liverpool. Hann endaði á því að nefna markvörðinn David de Gea eins skrýtið og það hljómar eftir frammistöðu Alisson að undanförnu.

Phil Thompson nefnir líka Virgil van Dijk fyrir Manchester United en átti líka í vandræðum með að finna United-mann fyrir Liverpool. Hann talaði um Juan Mata en telur að eftir komu Xherdan Shaqiri þá þurfi Liverpool ekki á Spánverjanum að halda.

Charlie Nicholas bætist í hóp þeirra sem áttu í vandræðum með að finna United-mann fyrir Liverpool en segist aftur á móti geta nefnt marga leikmenn Liverpool sem gætu hjálpað liði Manchester United. Nicholas segir auðvelt að nefna menn eins og Van Dijk eða Salah en að hann væri hinsvegar mikill aðdáandi Roberto Firmino.

Það má finna alla umfjöllun Sky og skoðanir þessara fjögurra spekinga með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×