Erlent

Önnur skotárásin á skömmum tíma í Ísrael

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásin beindist að fólki við strætóskýli nærri bæjunum Silwad og Ofra, norður af Jerúsalem.
Árásin beindist að fólki við strætóskýli nærri bæjunum Silwad og Ofra, norður af Jerúsalem. AP/Mahmoud Illean
Tveir Ísraelar hafa verið skotnir til bana og nokkrir særðir, þar af einhverjir alvarlega, á Vesturbakkanum í Ísrael. Árásin beindist að fólki við strætóskýli nærri bæjunum Silwad og Ofra, norður af Jerúsalem. Það er skammt frá stað þar sem sambærileg árás var gerð fyrr í vikunni.

Her Ísrael segir að árásarmaður hafi stigið úr bíl við skýlið og skotið að hóp fólks. Bæði hermönnum og almennum borgurum. Bílnum var svo ekið á brott og miðlar á svæðinu segja hann hafa verið yfirgefinn skammt frá og að árásarmaðurinn og ökumaður bílsins hafi flúið á hlaupum.

Tveir létust á staðnum og tveir eru alvarlega særðir. Á sunnudaginn skutu menn úr bíl á hóp fólks við strætóskýli sem er í um eins og hálfs kílómetra fjarlægð frá árásarstaðnum í dag. Þá varð ólétt kona, sem var komin sjö mánuði á leið, fyrir skoti og dó barn hennar.

Samkvæmt Times of Israel er ekki vitað með vissu hvort sami hópurinn hafi verið að verki í báðum árásunum. Hamas samtökin hafa hrósað árás dagsins en hafa ekki lýst yfir ábyrgð á henni.



Talsmaður samtakanna sagði á Twitter að árásin, sem hann lýsti sem hetjulegri, hefði verið framkvæmd vegna hernáms Ísrael og að ungt fólk og menn Vesturbakkans myndu ávallt vera uppreisnarmenn á meðan á hernáminu stæði.

Ísraelsmenn hafa komið fyrir vegatálmum í borginni Ramallah, sem er nærri þeim stöðum þar sem áðurnefndar árásir voru gerðar, og stendur yfir leit að árásarmönnunum. Þá hafa fregnir borist af áhlaupum og húsleitum hermanna í borginni.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×