Erlent

Leikari úr Fresh Prince stefnir Fortnite fyrir dansstuld

Atli Ísleifsson og Birgir Olgeirsson skrifa
Fyrir fjórum árum steig Alfonso Ribeiro danssporin sem þátttakandi í þáttunum Dancing with the Stars.
Fyrir fjórum árum steig Alfonso Ribeiro danssporin sem þátttakandi í þáttunum Dancing with the Stars.
Bandaríski leikarinn Alfonso Ribeiro, sem þekktastur er fyrir að hafa farið með hlutverk Carlton í þáttunum Fresh Prince of Bel Air, hefur stefnt framleiðendum tölvuleiksins Fortnite fyrir að stela því sem hann kallar einkennisdans sinn úr þáttunum.

Persónan Carlton átti það til að taka dansspor í þáttunum Fresh Prince sem framleiddir voru á árunum 1990 til 1996 og skartaði Will Smith í aðalhlutverki.

Ribeiro hefur nú ákveðið að stefna Epic Games, sem framleiðir tölvuleikinn vinsæla Fortnite, þar sem hann segir þá notast við dansinn í leyfisleysi.

Lögmaður Ribeiro vonast til að hægt verði að ná sáttum í formi þess að framleiðendur Fortnite greiði skjólstæðingi sínum bætur þar sem það hafi verið Ribeiro sjálfur sem hannaði umræddan dans.

Ribeiro hefur áður reynt að tryggja sér höfundarrétt af danshreyfingunum en án árangurs. Fyrir fjórum árum steig hann danssporin sem þátttakandi í þáttunum Dancing with the Stars. Hann stýrir nú þáttunum America's Funniest Home Videos.

Fortnite er einn allra vinsælasti tölvuleikur heims, en í frétt CNN segir að 78,3 milljónir manna hafi spilað leikinn í ágúst síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×