Sport

Stálið bráðnaði í sögulegu tapi Pittsburgh liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike Badgley var hetjan í sögulegum endurkomusigri Los Angeles Chargers.
Mike Badgley var hetjan í sögulegum endurkomusigri Los Angeles Chargers. Vísir/Getty
Spennan er ekkert minni í baráttunni um sæti í úrslitakeppni NFL-deildarinnar eftir viðburðarríkan sunnudag í ameríska fótboltanum. Hrútarnir urðu fyrstir til að tryggja sér öruggt sæti í úrslitakeppninni.

Los Angeles Chargers vann frábæran 33-30 endurkomusigur í Pittsburgh en þetta var í fyrsta sinn sem Pittsburgh Steelers tapar niður sextán stiga forystu á heimavelli sínum í Stálborginni. Þetta var 176. leikurinn sem liðið hefur verið í slíkri stöðu, Steelers höfði unnið 174 og einn hafði endaði með jafntefli. Nú bráðnaði Stálið og Chargers liðið vann sögulegan sigur.

Pittsburgh Steelers gat stigið stórt skref í átta að úrslitakeppninni í nótt og allt leit út fyrir að það yrði raunin eftir frábæra byrjun á móti Los Angeles Chargers.





Steelers-liðið komst í 13-0 og var 23-7 yfir í hálfleik. Chargers menn svöruðu með sannkölluðu áhlaupi þegar þeir skoruðu 23 stig og komust yfir í 30-23. Pittsburgh jafnaði metin í 30-30 en það var nægur tími fyrir Philip Rivers og félaga til að fara upp völlinn og tryggja sér sigurinn með vallarmarki sparkarans Mike Badgley.

Philip Rivers nýtti alla sína reynslu á frábæran hátt og setti á svið sýnikennslu í hvernig leikstjórnandi á að grafa liðið sitt upp úr holu.

Antonio Brown, útherji Pittsburgh Steelers, átti frábæran leik með 154 jördum og snertimarki og þá skoraði hlauparinn James Conner tvö snertimörk.





Hlutirnir duttu vissulega með Chargers mönnum. Þeir skoruðu eitt snertimark eftir klárt leikbrot og annað í beinu framhaldi að Pittsburgh Steelers spörkuðu boltanum frá sér.

Los Angeles Chargers liðið hefur nú unnið 9 af 12 leikjum sínum og er í mjög góðri stöðu í Ameríkudeildinni. Pittsburgh Steelers er enn á toppi síns riðils en Baltimore Ravens vann sinn leik og það verður því hörð barátta milli liðanna tveggja í lokaumferðunum.

Óvænt tap Green Bay Packers á heimavelli á móti Arizona Cardinals hafði stórar afleiðingar. Það er ekki nóg með að vonir Packers liðsins um sæti í úrslitakeppninni yrðu að engu þá var þjálfari liðsins, Mike McCarthy, einnig rekinn eftir leik. McCarthy var búinn að þjálfa Green Bay í þrettán tímabil eða frá árinu 2006.





Nokkur lið unnu lífsnauðsynlega sigra í baráttu fyrir að halda voninni lifandi um sæti í úrslitakeppninni. Þetta er lið eins og Tennessee Titans (26-22 sigur á New York Jets), Denver Broncos (24-10 sigur á Cincinnati Bengals), Miami Dolphins (21-17 sigur á Buffalo Bills), New York Giants (30-27 sigur á Chicago Bears) og Tampa Bay Buccaneers (24-17 sigur á Carolina Panthers).

Jacksonville Jaguars á enn pínulitla von en liðið endaði sjö leikja sigurgöngu sína þrátt fyrir að skora bara sex stig. Jaguars liðið vann eitt stigahæsta deildarinnar Indianapolis Colts 6-0.





Los Angeles Rams vann 30-16 sigur á Detroit Lions og varð um leið fyrsta liðið til að tryggja sér sigur í sínum riðli og um leið sæti í úrslitakeppnini. Rams-liðið hefur unnið 11 af 12 leikjum sínum á tímabilinu.

Seattle Seahawks er með Rams í riðli en á nú samt góða möguleika á sæti í úrslitakeppninni eftir þriðja sigurinn í röð. Seahawks liðið vann sannfærandi 43-16 sigur á San Francisco 49ers.





Kansas City Chiefs, New England Patriots og Houston Texans unnu öll sína leiki og eru í frábærri stöðu í Ameríkudeildinni. Houston Texans kældi niður Cleveland Browns liðið með 29-13 en þetta var níundi sigurleikur Houston í röð sem er lengsta lifandi sigurgangan í NFL-deildinni.

Öll úrslitin í NFL-deildinni í gær:

Pittsburgh Steelers - Los Angeles Chargers 30-33

New England Patriots - Minnesota Vikings    24-10    

Seattle Seahawks - San Francisco 49ers    43-16    

Oakland Raiders - Kansas City Chiefs    33-40    

Tennessee Titans - New York Jets    26-22    

Atlanta Falcons - Baltimore Ravens    16-26    

Cincinnati Bengals - Denver Broncos    10-24    

Detroit Lions - Los Angeles Rams    16-30    

Green Bay Packers - Arizona Cardinals    17-20    

Houston Texans - Cleveland Browns    29-13    

Jacksonville Jaguars - Indianapolis Colts    6-0    

Miami Dolphins - Buffalo Bills    21-17    

New York Giants - Chicago Bears    30-27 (27-27)    

Tampa Bay Buccaneers - Carolina Panthers    24-17







NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×