Menning

Hjúkrunarkonan orðin hjúkrunarfræðingur í barnabók Birgittu

Jakob Bjarnar skrifar
Í nýrri endurprentun bókar Birgittu sem segir af því að Lára fari til læknis hittir Lára nú hjúkrunarfræðing en ekki hjúkrunarkonu.
Í nýrri endurprentun bókar Birgittu sem segir af því að Lára fari til læknis hittir Lára nú hjúkrunarfræðing en ekki hjúkrunarkonu. visir/vilhelm
„Láru-upplag ársins er komið í 12 þúsund eintök, fyrstu upplög eru á þrotum,“ segir Egill Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri Forlagsins, harla kátur með góða bóksölu.

Gripið hefur verið til þess að endurprenta nýjar barnabækur Birgittu Haukdal vegna góðra viðtakna. Bækurnar eru prentaðar utan landsteina og er verið að bruna bókunum upp allt meginland Evrópu til að tryggja það að bækurnar nái til lands áður en mesta jólabóksalan hefst.

Stórskaðlegar staðalímyndir

Bókin Lára fer til læknis olli nokkrum usla á dögunum vegna þess að hópur hjúkrunarfræðinga taldi forkastanlegt að ein persóna í bókinni er kölluð hjúkrunarkona en ekki hjúkrunarfræðingur; að hún væri í aukahlutverki og ekki nafngreind. Þótti höfundur ekki sýna stéttinni tilhlýðilega virðingu, um skaðlega staðalímynd væri að ræða og Vísir hefur heimildir fyrir því að meira að segja gengu hugleiðingar í lokuðum hópi hjúkrunarfræðinga út á það að þetta væri hugsanlega liður í að smætta stéttina vegna komandi kjaraviðræðna.

Fjöldi fólks gaf á hinn bóginn lítið fyrir það sjónarmið á samfélagsmiðlum, töldu hjúkrunarkonu gott og gilt orð og vildu margir sýna Birgittu samstöðu og var skorað á fólk að kaupa bækur hennar til að undirstrikunar þeirri skoðun að þetta væri ómakleg og ómarktæk gagnrýni. Listin gæti aldrei orðið uppeldisfræði í dulargervi, ef hún lítur forskrift tiltekinna viðhorfa er um áróður að ræða en ekki list. Undir þetta tók Birgitta í ítarlegu viðtali Vísis sem snérist um rithöfundaferil hennar. Ef litið er til góðs gengis Birgittu á bóksölulistum virðist sem fjöldi manna hafi svarað kallinu, þó erfitt sé að fullyrða um hvað ræður bókarkaupum.

 

Viðurkenning á mistökum

Birgitta vildi hins vegar verða við þessari kröfu um breytingu, þó hún hafi ekki viðurkennt mistök baðst hún afsökunar og lýsti því að henni þætti leitt að hafa sært hjúkrunarfræðinga.

Forlagið var jafnframt sakað um að hafa gert mistök í útgáfuferlinu af reiðum hjúkrunarfræðingum. Spurður hvort breytingin hljóti þá ekki að vera til marks um að mistök hafi verið gerð segir Egill Örn að Birgitta hafi sjálf sagt að hún vildi „leiðrétta þetta, eðlilega. Og við urðum að sjálfsögðu við því.“

Samkvæmt þessu geta hjúkrunarfræðingar og þeir sem telja að koma verði böndum á stórskaðlegar staðalímyndir í bókmenntum nú hrósað sigri og tekið Birgittu í sátt.

 


Tengdar fréttir

Segir vinnubrögð Birgittu óásættanleg

Herdís Sveinsdóttir, prófessor og deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands, birti í dag skoðanapistil þar sem hún gagnrýndi vinnubrögð útgáfufyrirtækisins Forlagsins og söngkonunnar og rithöfundarins Birgittu Haukdal við útgáfu bókar Birgittu, Lára fer til læknis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×