Innlent

Viðskiptavinir hafa forgang á bílastæði við Smáralind

Andri Eysteinsson skrifar
Bílastæði við Smáralindina eru um 3000 talsins. Viðskiptavinir eru í forgangi um þau fyrir Jól.
Bílastæði við Smáralindina eru um 3000 talsins. Viðskiptavinir eru í forgangi um þau fyrir Jól. Vísir/Vilhelm
Starfsfólki Smáralindarinnar hefur verið gert að leggja bílum sínum á sérstöku starfsmannabílastæði fyrir jólin. Bílastæðið er ómalbikað og er í um 100 metra fjarlægð frá húsinu.

Framkvæmdastjóri Smáralindarinnar, Sturla Gunnar Eðvarðsson, segir í samtali við Vísi að fyrirkomulagið hafa verið lýði við hver jól frá opnun Smáralindarinnar árið 2001.

Í mynd við færslu sem birtist á Twitter fyrir helgi sést að starfsfólki hefur verið sagt að leggja bílum sínum á lóð í eigu Smáralindarinnar nærri framkvæmdunum við nýja hverfið 201 Smári.

Á myndinni stendur einnig að starfsmenn megi eiga von á því að bílar þeirra verði dregnir burt á þeirra eigin kostnað verði þeir á bílastæðum sem ætluð eru viðskiptavinum.

Viðskiptavinir ganga fyrir

„Við látum okkar viðskiptavini ganga fyrir um bestu bílastæðin þegar mest er aðsókn í húsið“ segir Sturla Gunnar Eðvarðson í samtali við Vísi.

Aðspurður hvort beri á óánægju meðal starfsfólks segir Sturla að slíkt fylgi því þegar fólk er beðið um að leggja lengra frá.

„Það eru náttúrulega hundruðir manna sem vinna í Smáralind og það er alltaf einn og einn sem er ósáttur,“segir Sturla. Sturla segist þó sjálfur ekki hafa orðið var við óánægju.

Bílastæði í kringum Smáralindina eru í kringum 3.000 talsins og síðustu dagana fyrir jól eru gestir Smáralindarinnar allt að 40.000 á hverjum degi, því þarf að stýra umferðinni um bílastæðin þegar mikið er að gera, segir Sturla.

Um einkalóð að ræða

Spurður að því hvort Smáralindin hafi heimild til þess að banna starfsfólki að leggja á bílastæðunum segir Sturla að Smáralindin sé með fullan umráðarétt yfir bílastæðunum.

Sturla segir enn fremur að í gegnum tíðina hafi fólk lagt ýmsum ökutækjum og fellihýsum á bílastæði Smáralindarinnar sem hafi heimild til að láta draga bílana í burt þar sem að um einkalóð er að ræða.

Smáralindin hafi hins vegar ekki heimild til þess að sekta eigendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×