Fótbolti

Pogba ekki með Frökkum vegna meiðsla

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pogba var í liði Frakka sem gerði 2-2 jafntefli við Ísland í síðasta landsleikjahléi
Pogba var í liði Frakka sem gerði 2-2 jafntefli við Ísland í síðasta landsleikjahléi vísir/getty
Meiðsli Paul Pogba gætu verið alvarlegri en fyrst var talið. Hann hefur dregið sig út úr landsliðshóp Frakka fyrir komandi leiki.

Pogba var ekki í hóp Manchester United í grannaslagnum við Manchester City í gær. Jose Mourinho, knattspyrnustjóri United, sagði rétt fyrir leikinn að Pogba væri meiddur, hann hafi spilað í gegnum meiðslin gegn Juventus í vikunni og það hafi kostað Pogba þennan leik.

Mourinho sagði svo eftir leikinn að Pogba yrði ekki með Frökkum í komandi leikjum, leik gegn Hollandi í Þjóðadeildinni og vináttulandsleik gegn Úrúgvæ.

Pogba var einn besti maður Frakka í sumar þegar þeir urðu heimsmeistarar og hefur verið fastamaður í landsliðinu síðan. Frakkar eru efstir í sínum riðli Þjóðadeildarinnar og í lykilstöðu að komast áfram í fyrstu úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar.

Næsti leikur United eftir landsleikjahléið er gegn Crystal Palace á Old Trafford laugardaginn 24. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×