Innlent

„Ef ég hefði verið með plan fyrir fimm árum væri það farið í vaskinn“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sunneva í ræðustól við útskriftarathöfnina.
Sunneva í ræðustól við útskriftarathöfnina. Mynd/Aðsend
Sunneva Sverrisdóttir er 26 ára og útskrifaðist úr meistaranámi í Copenhagen Business School, CBS, í ágúst síðastliðnum. Hún var valin heiðursnemandi útskriftarárgangsins, fyrst Íslendinga, og flutti ræðu við hátíðlega athöfn í Kaupmannahöfn að viðstöddum Jóakim Danaprins. Hún starfar nú hjá einni stærstu auglýsingastofu í Norður-Evrópu og unir sér vel en horfir þó með opnum hug til framtíðar, sem ekki er rækilega kortlögð.

„Við vorum fimm sem héldum ræðu: tveir „keynote“-ræðumenn úr atvinnulífinu, forseti skólans, Jóakim Danaprins og svo ég. Það var ofboðslega skemmtilegt og mikið gert úr deginum,“ segir Sunneva í samtali við Vísi.

Sunneva nældi sér í stúdentspróf úr Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2012 og lauk svo BS-prófi í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík í janúar 2016. Þá hefur hún fengist við ýmislegt þess á milli en margir kannast eflaust við hana úr þáttaröðunum Tveir plús sex og Prófíl sem hún stjórnaði á miðlum 365 árin 2012-2015. Haustið 2016 hélt Sunneva svo út í mastersnám en hún ber skólanum afar vel söguna.

Sunneva stýrði þættinum Tveir plús sex á Popptíví ásamt Veigari Ölni Gunnarssyni.Fréttablaðið/Stefán
„Ég flutti til Danmerkur af því að ég var búin að heyra að þetta væri frábært nám þarna í CBS. Ég valdi mér nám sem heitir „stragetic market creation“ sem er blanda af stefnumótun, markaðsfræði og nýsköpun. Ég var ofboðslega ánægð, þetta var mjög skemmtilegt enda er CBS góður í að gera mikið úr því sem gerist utan kennslustofunnar,“ segir Sunneva. Gagnvirkni og samtöl í tímum, fyrirlesarar, félagslíf og góð tenging út í atvinnulífið hafi þar borið hæst.

Valin með sex daga fyrirvara

Eftir tvö ánægjuleg ár við CBS var svo komið að útskrift í ágúst síðastliðnum. Einn nemandi úr hverjum útskriftarárgangi er iðulega valinn til að halda ræðu við athöfnina, og sá hlýtur jafnframt titilinn „valedictorian“ eða heiðursnemandi upp á íslensku. Sunneva segir skólastjórnendur aðallega taka mið af námsárangri við valið á heiðursnemanda hvers árs en einnig sé litið til félagsstarfa.

„Við vorum nokkur boðuð í viðtöl, sirka tíu dögum fyrir athöfnina, þannig að fyrirvarinn var mjög stuttur. Í viðtalinu vorum við spurð út í það hver við værum, hvað við værum að gera og hvað við myndum vilja segja í ræðunni, yrðum við valin,“ segir Sunneva. Fyrirvarinn var þannig afar stuttur.

Sunneva fagnar hér áfanganum með foreldrum sínum, þeim Áslaugu Harðardóttur og Sverri Björnssyni.Mynd/Aðsend
„Sex dögum fyrir útskrift fæ ég svo að vita að ég hafi verið valin til að halda þessa ræðu. Og það var mjög skemmtilegt, mér hefur alltaf þótt gaman að halda ræður. Þetta var auðvitað smá stressandi en aðallega tilhlökkun, maður er náttúrulega búinn að vera í skóla í tuttugu ár þannig að það var gaman að enda þetta á þessu, fá þennan heiður og fá tækifæri til að tala fyrir framan svona mikið af fólki,“ segir Sunneva, sem gerir ráð fyrir að fjöldi viðstaddra hafi hlaupið á þúsundum.

„Það var svolítið sturlað þegar maður var kominn þarna upp, ég áttaði mig ekki á öllum fjöldanum fyrr en rétt áður en ég flutti ræðuna.“

Sunneva naut þó stuðnings kunnuglegra andlita í mannhafinu en foreldrar hennar, tvær æskuvinkonur og kærasti voru viðstödd athöfnina.

Mikilvægt að varðveita barnið í sér

En hvert var umfjöllunarefni ræðunnar? Hvað matreiddirðu ofan í prinsinn?

„Mig langaði að halda ræðunni léttri og skemmtilegri. Ég talaði um að við ættum að halda í barnið í okkur, vera forvitin og spyrja spurninga. Þótt við séum búin að útskrifast þýðir það ekki að við eigum að hætta að læra. Skilgreiningin á því að vera fullorðinn er, upp á ensku, að vera „fully developed“. Ég velti því upp hvort við ættum ekki að reyna að halda í barnið í okkur,“ segir Sunneva.

Það er ekki ofsögum sagt að mikið fjölmenni hafi hlýtt á útskriftarræðu Sunnevu.Mynd/Aðsend
„Þannig lagði ég áherslu á að við ættum að halda áfram að læra, taka lífinu ekki of alvarlega, hlæja og hafa gaman af hlutunum og vera meðvituð um að við þurfum ekki alltaf að hafa svarið við öllu. Ég talaði líka um að mannleg samskipti væru ein allra besta fjárfesting sem við gætum gert og að samskiptahæfnin gæti gefið okkur launahækkunina sem okkur mögulega vantaði eða ástina í lífinu, þess vegna.“

Frá Barbie til Samkaupa

Sunneva vann hjá auglýsingastofunni Kunde & co samhliða náminu og var ráðin þangað í fullt starf 1. júní síðastliðinn, áður en hún útskrifaðist og varði meistararitgerðina sína. Hún segir starfið skemmtilegt en Kunde & co er ein stærsta „strategíska“ auglýsingastofa í Norður-Evrópu. Stór, alþjóðleg vörumerki eru á mála hjá stofunni – auk nokkurra íslenskra á borð við Icelandair, Bláa lónið og Samkaup.

„Mér finnst þetta ofboðslega skemmtilegt og fæ að fara heim í vinnuferðir inn á milli. Ég er aðallega að vinna með Neutral-merkið og við erum í raun með það merki á alþjóðavísu. Fyrir merkið vinnum við allt frá stefnumótuninni og yfir í skapandi hliðina, þar sem við hönnum til að mynda pakkningarnar og auglýsingaefnið,“ segir Sunneva.

Sunneva ásamt öðrum ræðumönnum við útskriftina. Jóakim Danaprins sést íklæddur gráum jakkafötum til hægri á mynd.Mynd/Aðsend
Þá hefur Sunneva nýlega fengist við verkefni fyrir Barbie, TRESemmé og Zendium á Norðurlöndunum og Samkaup heima á Íslandi, auk þess sem hún hefur aðstoðað við vinnu fyrir önnur vörumerki af ýmsum toga.

„Þetta er ofboðslega krefjandi en mjög skemmtilegt, það er enginn dagur eins og þú ert alltaf að fást við ný verkefni og vinna með nýju fólki.“

Ástin og vinirnir í Kaupmannahöfn

Sunneva segist hafa komið sér vel fyrir í Danmörku og stefnir líklega ekki heim til Íslands í bráð, en aðspurð útilokar hún þó ekki neitt í þeim efnum.

„Ég veit það ekki. Mér finnst erfitt að svara þessu. Ég veit ekki hvort þetta sé okkar kynslóð eða bara ég persónulega, en mér finnst allt sem heitir tíu ára plan eða tuttugu ára plan mjög erfið tilhugsun. Maður grípur tækifærin sem gefast manni þegar þau koma, enda vissi ég ekki fyrir fimm árum að ég yrði hér í dag. Þannig að ef ég hefði verið með plan fyrir fimm árum væri það farið í vaskinn.“

Sunneva kynntist kærasta sínum, handboltamanninum Oliver, rétt áður en hún flutti út til Danmerkur. Þau hafa nú verið saman í rúm þrjú ár.Mynd/Aðsend
Þá ber Sunneva Dönum einstaklega vel söguna, segir þá afslappaða og þægilega þjóð, sem einmitt er ein ástæða þess að hugurinn leitar ekki endilega heim. Hún hefur einnig eignast marga vini í náminu og svo vildi til að rétt áður en hún flutti út fann hún ástina.

„Við erum búin að vera saman í rúm þrjú ár og hann var líka að klára nám í júní. Hann reyndar vinnur við að spila handbolta og er að byrja núna í framhaldsnámi. Við búum á Norrebro, það er nálægt bæði vinnunni minni og handboltanum hans þannig að við erum ofboðslega ánægð,“ segir Sunneva.

„En aldrei að segja aldrei, hver veit nema ég fái spennandi tækifæri eða brjálaða heimþrá og flytji heim. Maður veit náttúrulega aldrei, tíminn verður bara að leiða það í ljós.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×