Erlent

Fær enn morðhótanir eftir að hún sakaði hæstaréttardómaraefni um kynferðisofbeldi

Kjartan Kjartansson skrifar
Christine Blasey Ford sór eið um sannsögli þegar hún kom fyrir þingnefnd í september.
Christine Blasey Ford sór eið um sannsögli þegar hún kom fyrir þingnefnd í september. Getty/Win McNamee
Lífverðir þurfa enn að gæta öryggis Christine Blasey Ford, konunnar sem sakaði hæstaréttardómaraefni Donalds Trump Bandaríkjaforseta um kynferðisofbeldi nú þegar meira en mánuður er liðinn frá því að hún bar vitni fyrir þingnefnd. Hún hefur heldur ekki getað snúið aftur til vinnu og fær enn morðhótanir.

Blasey Ford sakaði Brett Kavanaugh, sem Trump tilnefndi til hæstarréttar, um að hafa reynt að nauðga sér í teiti á námsárum þeirra í Maryland. Stuðningsmenn Kavanaugh, þar á meðal Trump forseti, héldu því fram að ásakanir Blasey Ford og fleiri kvenna væru að „rústa“ lífi Kavanaugh.

Kavanaugh var skipaður hæstaréttardómari í síðasta mánuði og tók sæti 9. október. Hæstaréttardómarar eru skipaðir til lífstíðar.

Á meðan fær Blasey Ford hins vegar hótanir. Lögmaður hennar sagði í yfirlýsingu til NPR í síðustu viku að hún hafi þurft að flytja fjórum sinnum vegna þeirra. Hún hafi ekki getað snúið aftur til vinnu sem prófessor við Palo Alto-háskólann í Kaliforníu og óljóst sé hvenær hún geti það. Öryggisverðir gæti hennar.

Þegar Blasey Ford kom fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings lýsti hún því hvernig hún hefði verið áreitt linnulaust og fengið morðhótanir eftir að hún steig fram.

„Fólk hefur birt persónulegar upplýsingar um mig á netinu. Þetta hefur leitt til frekari tölvupósta, símhringinga og hótana. Við fjölskyldan neyddumst til að flytja út af heimilinu. Við fjölskyldan höfum búið að nokkrum ólíkum öruggum stöðum með vörðum,“ sagði hún þá.

Kavanaugh (t.h.) var kampakátur við athöfn sem var haldin honum til heiðurs í Hæstarétti Bandaríkjanna 8. nóvember. Hann tók sæti Anthony Kennedy (t.v.) sem hætti störfum á þessu ári.Vísir/AP

Tengdar fréttir

Trump hæddist að vitnisburði Blasey Ford

Blasey Ford kom fyrir dómsmálanefndina í síðustu viku og bar þar vitni vegna ásakana sem hún hefur sett fram á hendur Brett Kavanaugh, sem Trump hefur tilnefnt í Hæstarétt Bandaríkjanna.

Skipan Bretts Kavanaugh staðfest

Tilnefning Kavanaugh hefur verið afar umdeild og stigu fram þrjár konur sem sökuðu hann um kynferðislegt misferli, þar á meðal sálfræðiprófessorinn Christine Blasey Ford sem gaf vitnisburð sinn fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings fyrir rúmri viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×