Erlent

Forsetafrúin vill láta Ricardel fjúka

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Fulltrúi Hvíta hússins staðfesti að Bandaríkjaforseti ætli sér að víkja aðstoðar-þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna úr embætti.
Fulltrúi Hvíta hússins staðfesti að Bandaríkjaforseti ætli sér að víkja aðstoðar-þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna úr embætti. Vísir/AP
Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, kallaði í dag opinberlega eftir því að Miru Ricardel aðstoðar-þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna yrði sagt upp störfum.

Yfirlýsing forsetafrúarinnar sætir furðu því hingað til hefur hún ekki lagt það í vana sinn að gagnrýna háttsetta embættismenn.

Fréttastofa CNN hefur fengið það staðfest frá Hvíta húsinu að Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggist víkja Ricardel úr embætti.

Fulltrúi Hvíta hússins sagði auk þess að Trump ætli að gefa Ricardel ráðrúm til að rýma skrifstofuna. Þá liggur það ekki fyrir á þessari stundu hvenær Ricardel verður gert að yfirgefa Hvíta húsið.

„Afstaða skrifstofu forsetafrúarinnar er sú að Ricardel eigi ekki lengur skilið þann heiður að þjóna í Hvíta húsinu,“ segir samskiptastjóri forsetafrúarinnar Stephanie Grisham í yfirlýsingu.

Ricardel og Melania Trump áttu í deilum á meðan á opinberri heimsókn hennar til Afríku stóð í síðasta mánuði. Ricardel er gefið að sök að hafa lekið neikvæðum fréttum um Melaniu Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×