Enski boltinn

Sögusagnir um risatilboð Liverpool í Ousmane Dembélé

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ousmane Dembélé í leik með Barcelona.
Ousmane Dembélé í leik með Barcelona. Vísir/Getty
Liverpool hefur mikinn áhuga á einum sóknarmanni Barcelona liðsins ef marka má sögusagnir sem blaðamenn Guardian hafa hlerað á síðustu dögum.

Guardian segir í dag frá orðrómi um að Liverpool ætli að bjóða 85 milljónir punda í Ousmane Dembélé í janúar næstkomandi.

Barcelona keypti Ousmane Dembélé fyrir 105 milljónir punda frá Borussia Dortmund árið 2017 en það hefur ekki gengið alltof vel hjá stráknum á Nývangi. Hann átti að fylla skarð Neymar en hefur verið langt frá því.





Ousmane Dembélé var engu að síður í heimsmeistarahóp Frakka síðasta sumar og hefur sýnt flott tilþrif inn á milli í leikjum með Barcelona. Ousmane Dembélé er líka ennþá aðeins 21 árs gamall og á því framtíðina fyrir sér í boltanum.

Það eru líka vandræði á Ousmane Dembélé því hann var settur á bekkinn um síðustu helgi eftir að hafa skrópað á tvær æfingar.

Samkvæmt fréttum á Spáni þá er ekki stefnan sú hjá Barcelona að losa sig við leikmanninn en það er hinsvegar vitað að Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er mikill aðdáandi og að þeim sökum muni Liverpool ætla að bjóða 85 milljónir punda í Dembélé á nýju ári.

Liverpool hefur selt framherjana Luis Suarez og Philippe Coutinho til Barcelona á síðustu árum.

Ousmane Dembélé er með 4 mörk í 11 leikjum í spænsku deildinni á þessu tímabili og 1 mark í 2 leikjum í Meistaradeildinni. Á síðustu leiktíð var hann með 3 mörk í 17 leikjum í deildinni og 1 mark í 3 leikjum í Meistaradeildinni.

Ousmane Dembélé í leik á móti íslenska landsliðinu á dögunum.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×