Erlent

Hringekjan byrjar aftur eftir að þingið hafnaði Kristersson

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ulf Kristersson.
Ulf Kristersson. Getty/MICHAEL CAMPANELLA
Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, mun aftur þurfa að setjast niður með leiðtogum sænsku stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á þingi til að ræða um möguleika á myndun nýrrar ríkisstjórnar. Sænska þingið hefur kosið gegn því að Ulf Kristersson, leiðtoga hægriflokksins Moderaterna, verði næsti forsætisráðherra landsins.

Brösuglega hefur gengið að mynda ríkisstjórn í Svíþjóð eftir þingkosningar þar í landi 9. september síðastliðinn og hefur stjórnarmyndunarumboðið hefur gengið fram og til baka. Gengið var til atkvæða á þingi í morgun um að Kristersson myndi gegna embætti forsætisráðherra eftir að hann sagðist í gær vilja mynda minnihlutastjórn Moderaterna og Kristilegra demókrata.

Meirihluti sænska þingsins kaus hins vegar gegn Kristersson en 195 þingmenn sögðu nei, 154 sögðu já. Útlitið var raunar kolsvart fyrir Kristersson strax í gær þegar Annie Lööf, formaður Miðflokksins, tilkynnti að þingmenn flokksins myndu ekki greiða atkvæði með Kristersson.

Norlén hefur tilkynnt að hann muni hitta flokksleiðtoga á morgun til þess að ræða þá stöðu sem upp er kominn og í kjölfarið muni hann tilkynna næstu skref.

Að hámarki má sænska þingið greiða atkvæði um tillögu að forsætisráðherra fjórum sinnum áður en boða þarf til nýrra kosninga. Atkvæðagreiðslan um Kristersson var sú fyrsta í röðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×