Viðskipti innlent

600 milljóna króna gjaldþrot hjá barnafataverslun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kandi ehf. var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2015.
Kandi ehf. var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2015. Vísir/Vilhelm
Engar eignir fundust í þrotabúi Kanda ehf. sem rak barnafataverslunina Polarn O. Pyret í Smáralind fyrir um áratug. Kandi ehf. var úrskurðað gjaldþrota árið 2015 en skiptum í búið lauk á dögunum. Námu kröfur í búið 586 milljónum króna að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu.

Stærsti kröfuhafinn í þrotabúið var Drómi ehf. sem höfðaði mál á hendur Kanda ehf. vegna 110 milljóna króna láns sem rekstraraðilarnir tóku hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis árið 2007. Var Kanda gert að greiða Dróma 320 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum. 

Drómi varð sem kunnugt er til með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins árið 2009, sérstakt hlutafélag í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, sem tók við kröfuréttindum í eigu sparisjóðsins. 

Polarn O. Pyret var stofnað í Svíþjóð árið 1976 og hefur verið verslun með nafninu á Íslandi í rúmlega þrjátíu ár. Verslun Polarn O. Pyret var um tíma rekin bæði í Kringlunni og Smáralind. Í dag er hún aðeins rekin í Kringlunni, af sömu aðilum og héldu utan um Kanda en á annarri kennitölu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×