Erlent

Ríkis­stjórn Bret­lands styður út­göngu­sátt­málann

Atli Ísleifsson og Birgir Olgeirsson skrifa
Theresa May ávarpar blaðamenn fyrir utan Downingstræti 10 í kvöld.
Theresa May ávarpar blaðamenn fyrir utan Downingstræti 10 í kvöld. Vísir/Getty
Ríkisstjórn Bretlands hefur ákveðið að styðja drög útgöngusáttmála Bretlands og Evrópusambandsins. Samninganefndir Breta og Evrópusambandsins kláruðu þessi drög aðfaranótt þriðjudags.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, tilkynnti þetta á blaðamannafundi fyrir utan Downingstræti 10 í Lundúnum nú á áttunda tímanum í kvöld að loknum fimm tíma fundi ríkisstjórnarinnar. Hún sagði þennan útgöngusáttmála bestu niðurstöðuna fyrir Breta og sagði hann í samræmi við val þjóðarinnar sem studdi útgöngu Breta úr ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sagði hún þennan útgöngusáttmála vernda bæði störf og breska ríkið.

May sagðist gera sér grein fyrir því að ákvörðunin um að styðja útgöngusáttmálann yrði gagnrýnd og að framundan væru erfiðir dagar. Ríkisstjórnin hafi hins vegar staðið frammi fyrir þeim kosti að byggja upp framtíð þjóðarinnar eða að fara aftur á byrjunarreit og fara gegn þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Að neðan má sjá stuttan fréttamannafund May fyrr í kvöld.



Drögin voru birt á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB nú í kvöld. Drögin eru 585 blaðsíður að lengd.

Breskir fjölmiðlar segja frá því að meirihluti ráðherra í ríkisstjórn hafi stutt samningsdrögin. Fréttamaður Sky segir að um tíu ráðherrar hafi verið samningnum andvíg. Megi því búast við að framundan séu afsagnir ráðherra.

Ávarpar þingið á morgun

May sagðist ætla að flytja ávarpa á breska þinginu á morgun og hún sagðist vera þeirrar trúar að þessi ákvörðun sé sú besta fyrir bresku þjóðina.

May hyggst funda með Arlene Foster, leiðtoga Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP) sem ver ríkisstjórn Íhaldsmanna falli, í kvöld.

Breskir fjölmiðlar segja líkur á því að andstæðingar samningsins muni bera upp tillögu um vantraust á hendur May.

Segir samninginn þann versta í sögunni

Nigel Farage, fyrrverandi formaður Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP), hvatt í kvöld „alla sanna“ stuðningsmenn útgöngu innan ríkisstjórnarinnar að segja af sér. Samningurinn sé sá versti í sögunni.

Bretland hyggst formlega segja skilið við Evrópusambandið þann 29. mars næstkomandi.

Fréttin var síðast uppfærð kl. 20:09.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×