Innlent

Stöðva framkvæmdir eftir að kista og beinagrind fundust

Atli Ísleifsson skrifar
Lindarvatn hyggur á byggingu hótels á Landssímareitnum en framkvæmdir hófust fyrr á árinu.
Lindarvatn hyggur á byggingu hótels á Landssímareitnum en framkvæmdir hófust fyrr á árinu. vísir/vilhelm
Minjastofnun hefur beint því til framkvæmdaaðila á Landsímareitnum að stöðva framkvæmdir eftir að líkkista og beinagrind fundust undir Landssímahúsinu í gær.

Mbl  greinir frá málinu. Í fréttinni segir að stöðvunin gildi þar til að starfsmenn Minjastofnunar hafi haft tækifæri til að kanna málið nánar, en taka þurfi afstöðu til þess hvort eigi að friðlýsa svæðið eða heimila áframhaldandi framkvæmdir.

Mbl hefur eftir Krist­ínu Huld Sig­urðardótt­ur, for­stöðumanni Minja­stofn­un­ar, að lík­kist­an og beina­grind­in hafi fund­ist í kirkju­g­arðinum sem er þarna á svæðinu. Lindarvatn hyggur á byggingu hótels á Landssímareitnum en framkvæmdir hófust fyrr á árinu.

Umdeild framkvæmd

Nokkur styr hefur staðið um framkvæmdina þar sem Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, og fleiri hafi skorað á Reykjavíkurborg og byggingaraðila að láta af áformum um byggingu hótels þar. Snýr deilan að kirkjugarðinum Víkurgarði sem er að finna á svæðinu, en hann var aflagður árið 1837.

Þetta er í fyrsta sinn sem Minjastofnun stöðvar framkvæmdir á svæðinu.


Tengdar fréttir

Minnast látinna í Víkurgarði

Klukkan 18 verður helgistund í Dómkirkjunni en síðan verður gengið í Víkurgarð og ljós lögð á leiði þar.

Fyrirhuguð bygging hótels eigi sér rætur í vanþekkingu á sögu

Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, og þrír aðrir heiðursborgarar Reykjavíkur skora á borgina og byggingaraðila að láta af áformum um byggingu hótels í Víkurgarði. Skipulagið og bygging hótelsins eigi sér rætur í mistökum í skipulagi. Borgarstjóri segist ætla að skoða áskorunina og leggja hana fram í borgarráði.

Segir framkvæmdir fara fram á Landssímareitnum, ekki Víkurgarði

Það er Lindarvatn sem reisir hótelið en framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Jóhannes Stefánsson, sendi fjölmiðlum orðsendingu í dag þar sem tekið er fram að engar framkvæmdir séu fyrirhugaðar í Víkurgarði, sem einnig er þekktur sem Fógetagarður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×