Körfubolti

Njarðvíkingar staðfesta Elvar og búast við honum í hóp gegn Grindavík á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson í Njarðvíkurbúningnum.
Elvar Már Friðriksson í Njarðvíkurbúningnum. Mynd/UMFN.is
Elvar Már Friðriksson mun spila með Njarðvík í Domino´s deild karla í körfubolta í vetur en Njarðvíkingar staðfestu komu hans á heimasíðu sinni í dag.

„Það gleður okkur að tilkynna það að Elvar Már Friðriksson er kominn heim og í gær var kláraður samningur við kappann um að klára tímabilið í grænum búningi Njarðvíkur,“ segir í frétt á heimasíðu Njarðvíkur.

Körfuboltakvöld sagði frá komu Elvars á föstudagskvöldið var en Njarðvíkingar staðfestu ekki samninginn fyrr en í morgun.

Elvar spilaði síðast fullt tímabil á Íslandi veturinn 2013-14 en hann var þá með 20,8 stig og 7,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Það er ljóst á öllu að þetta er svakalegur liðstyrkur fyrir Njarðvíkurliðið sem hefur byrjað tímabilið mjög vel.

Njarðvíkingar segja frá ástæðunni fyrir að Elvar er nú kominn heim úr avinnumennsku.

„Elvar lenti í erfiðum aðstæðum í Frakklandi og skipulagsbreytingar hjá liði hans þar urðu þess valdandi að samningi hans var sagt upp. Hugur Elvars leitaði að sjálfsögðu heim í grænt og var allri óvissu um allt annað eytt formlega í gær. Atvinnumanna draumur Elvars er þó ekki lokið en þrátt fyrir það er ekki klásúla í samningi Elvars að hann stökkvi til erlendis þennan veturinn og var það að frumkvæði Elvars að svo yrði,“ segir í fréttinni.

„Auðvitað leitaði hugur minn strax heim til Njarðvíkur þegar þessi staða kom upp.  Ég á erfitt með að sjá mig spila fyrir annað félag hérna heima á Íslandi,“ sagði Elvar í samtali við UMFN.is.

Í fréttinni kemur einnig fram að Njarðvíkinga búast við að Elvar verði í hóp á móti Grindavík á morgun en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×