Innlent

Guðni rifjar upp stóra ananas-málið: „Ég gekk skrefi of langt“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er sem fyrr ekki hrifinn af ananas á pizzu og mælir með fiskmeti.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er sem fyrr ekki hrifinn af ananas á pizzu og mælir með fiskmeti. vísir/garðar

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir að hann hafi gengið skrefi of langt þegar hann sagðist vilja láta banna ananas sem álegg á pítsur. Forsetinn rifjaði upp málið, sem vakti heimsathygli, í viðtali við kanadíska ríkisútvarpið.

Vísir greindi frá ummælum Guðna á sínum tíma en þau voru látin falla er forsetinn var í heimsókn í Menntaskólanum á Akureyri í febrúar árið 2017. Þar ávarpaði hann nemendur á sal þar sem hann fékk spurningu um hver afstaða hans væri til ananas sem álegg á pítsur. Sagðist Guðni alfarið vera á móti ananas á pizzum og bætti við að ef hann gæti sett lög um það myndi hann banna ananas á flatbökur.

Ummæli Guðna fóru sem eldur um sinu um heimsbyggðina og fjallað var um þau í fjölmörgum erlendum miðlum. Gekk málið svo langt að Guðni sá sig knúinn til þess að gefa út yfirlýsingu þess efnis að hann væri ekki í aðstöðu til þess að setja lög til þess að banna ananas á pítsur, né hefði hann áhuga á því að vera forseti, hefði hann slík völd.

Upphaf Hawaii-pizzunnar svokölluðu má rekja til veitingastaðarins Satellite í borginni Chatham í Kanada árið 1962.Vísir/Getty

Í viðtali í þættinum As it Happens í kanadíska ríkisútvarpinu rifjaði Guðni upp lætin í kringum þetta mál.

„Ég gekk skrefi of langt,“ viðurkenndi Guðni í viðtali við Carol Off, sem stýrir þættinum en spjall þeirra var á léttu nótunum. Off hóf viðtalið á því á spyrja Guðna hreint út hvað hann hefði á móti ananas á pítsum.

„Ég hef ekkert á móti ananas en þegar hann er settur á pítsur verður hann svampkenndur,“ sagði Guðni og bætti við að þegar fjölskylda hans pantaði pítsu með ananas endaði það yfirleitt með að ananasinn væri týndur af.

Málið þótti sérlega viðkvæmt í Kanada enda vilja heimamenn meina að hugmyndin um að setja ananas á pítsur hafi verið fædd þar. Á meðal þeirra sem tjáði sig um málið á sínum tíma var Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, þar sem hann lýsti því yfir að hann væri harður stuðningsmaður ananas sem áleggs á pítsu.

Sam Panopoulos, maðurinn sem almennt er talið að hafi fundið upp Havaí-pítsuna svokölluðu, pítsu með ananas, tjáði sig einnig um málið á sínum tíma í viðtali vip sama útvarpsþátt og rætt var við Guðna í gær.

Þar vitnaði hann í áðurnefnda yfirlýsingu Guðna, þar sem forsetinn mælti með því að setja fiskmeti og aðra sjávarrétti, á pítsur. Sagði Panopoulos að það væri augljóslega til marks um það að Guðni væri í bullandi hagsmunagæslu fyrir Íslands, enda sjávarútvegur lykilatvinngrein á Íslandi.

„Ég held að Sam Panopolous hafi hitt naglann á höfuðið þarna. Íslendingar reiða sig á sjávarútveg og ef allir myndu setja fiskmeti og sjávarrétti á pítsur væri það mjög gott,“ sagði Guðni og hló.

„Bíddu nú við, ertu að viðurkenna að þú sér í vasanum á sjávarútvegsfyrirtækum,“ spurði Off þá.

„Nei, ég myndi nú ekki ganga svo langt. En í allri hreinskilni, fiskmeti og sjávarréttir á pítsur er mjög gott. Þú ættir að prófa það,“ svaraði Guðni.

Í viðtalinu, sem hlusta má á hér, kemur meðal annars fram að Guðni hafi sent fjölskyldu Panopoulos samúðarkveðjur er hann lést á síðasta ári, auk þess sem að Guðni segir að honum hafi borist fjölmargar stuðningskveðjur úr öllum heimshornum vegna málsins, en einkum og sér í lagi frá Ítalíu, heimalandi pítsunnar.


Tengdar fréttir

Guðni Th. minnist ananas-mannsins

Á óbeinan hátt lágu leiðir okkar saman fyrr á þessu ári þegar ég spjallaði í gamni við nemendur Menntaskólans á Akureyri um pítsur og þetta tiltekna álegg – sem reyndar væri best að banna ef út í það væri farið,“ segir forsetinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×