Erlent

Fjórtán ára stúlka stakk aðra táningsstúlku til bana

Atli Ísleifsson skrifar
Lögreglu barst tilkynning um málið skömmu fyrir klukkan 15 að staðartíma í gær. Myndin tengist málinu ekki beint.
Lögreglu barst tilkynning um málið skömmu fyrir klukkan 15 að staðartíma í gær. Myndin tengist málinu ekki beint. Getty/Froggyfrog
Stúlkan sem grunuð er um að hafa stungið sautján ára stúlku til bana í sænska bænum Trollhättan í gær er sjálf fjórtán ára.

Sænskir fjölmiðlar greindu frá því í kvöld að hin grunaða á að hafa stungið hina sautján ára stúlku ítrekað með hníf, inni á stuðningsheimili fyrir ungt fólk þar sem þær dvöldu báðar.

Lögreglu barst tilkynning um málið skömmu fyrir klukkan 15 að staðartíma í gær, en stuðningsheimilið, sem rekið er á vegum sveitarfélagsins, er að finna í hverfinu Torsred. Eldri stúlkan var þá flutt alvarlega slösuð á sjúkrahús þar sem hún lést af sárum sínum.

Skýr mynd

Lögregla telur sig hafa nokkuð skýra mynd af því sem gerðist, en hyggst ekki greina frá því að svo stöddu, meðal annars vegna ungs aldurs stúlkunnar.

Stúlkan sem grunuð er um verknaðinn er nú í umsjá félagsmálayfirvalda í Svíþjóð. Yfirheyrslur hafa staðið í allan dag þar sem rætt hefur verið bæði við hina grunuðu og sjónarvotta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×