Erlent

Þurfa að handtelja öll atkvæðin í Flórida

Atli Ísleifsson skrifar
Lögum samkvæmt þarf að handtelja atkvæðin ef munar minna en 0,25 prósent á frambjóðendum eftir rafræna talningu.
Lögum samkvæmt þarf að handtelja atkvæðin ef munar minna en 0,25 prósent á frambjóðendum eftir rafræna talningu. Getty/Joe Skipper
Kjörstjórn í Flórida hefur fyrirskipað að öll atkvæði sem greidd voru í kosningunum til öldungadeildarinnar í ríkinu verði handtalin. Afar mjótt er á munum milli Demókratans Bill Nelson, sem sóttist eftir endurkjöri, og andstæðings hans, Repúblikanans og ríkisstjórans Rick Scott.

Niðurstaða hinnar rafrænu talningar var sú að Scott sé með um 12.600 atkvæða forskot á Nelson, sem samsvarar um 0,15 prósenta forskoti. Alls voru greidd átta milljónir atkvæða í kosningunum í ríkinu.

Reuters  segir frá því að lögum samkvæmt þarf að handtelja atkvæðin ef munar minna en 0,25 prósent á frambjóðendum eftir rafræna talningu.

Frambjóðendur deila

Scott er allt annað en ánægður með framvinduna og segir Nelson reyna að svindla til að reyna að ná fram sigri. „Á einn eða annan máta tókst þeim að finna 93 þúsund nýja kjörseðla eftir kosninganóttina. Við vitum ekki enn hvernig þeim tókst það,“ sagði Scott við Fox News á sunnudaginn.

Nelson svaraði Scott á þann máta á mánudag að Scott virðist hræddur um að tapa kosningunum þegar búið sé að telja öll atkvæðin.

Reglurnar um endurtalningu voru teknar upp eftir forsetakosingarnar árið 2000 þar sem George W. Bush hafði betur gegn Al Gore eftir harðvítugar deilur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×