Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Haukar 31-33 | Haukar halda toppsætinu

Gabríel Sighvatsson skrifar
Daníel Þór Ingason
Daníel Þór Ingason vísir/daníel
Afturelding og Haukar mættust í Íþróttamiðstöðinni Varmá í kvöld. Liðin voru í 1. og 4. sæti og mátti því búast við hörkuleik milli tveggja toppliða.

Aftuelding hafði ekki tapað á heimavelli fyrir leikinn í kvöld, þrátt fyrir að hafa spilað við lið eins og FH og ÍBV þar. Haukar breyttu því í kvöld.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir heimamenn. Haukar tók stjórnina og skoruðu að vild. Varnarleikurinn var ekki upp á marga fiska hjá Aftureldingu. Þeir tóku sig þó saman þegar leið á leikinn og náðu að minnka muninn í nokkur mörk þegar gengið var til hálfleiks.

Þá hélt maður að þeir myndu koma tvíefldir til baka í seinni hálfleik en annað kom á daginn. Haukar keyrðu yfir Aftureldingu í seinni hálfleik en aftur slök byrjun hjá Mosfellingum.

Þegar Haukar komust í 30 mörk hætti sóknin að skora og Afturelding komst aftur inn í leikinn á lokamínútunum en það var um seinan. Haukar kláruðu verkið að lokum, 33-31.

Af hverju unnu Haukar?

Haukarnir voru mjög góðir fyrstu 45 mínúturnar en þá keyrðu þeir á fullu gasi og voru með sannfærandi forystu þegar korter var eftir af leiknum.

Það reyndist nóg þrátt fyrir þreytu á lokamínútunum. Sóknin skoraði að vild um tíma og mallaði allan leikinn.

Hvað gekk illa?

Það var fyrst og fremst varnarleikur sem þurfti að laga hjá Aftureldingu. Strax í byrjun lentu þeir mörgum mörkum undir og það sama gerðist í byrjun seinni hálfleiks.

Heimamenn mættu ekki til leiks fyrstu mínúturnar í hvorum hálfleik og það var dýru verði keypt.

Hverjir stóðu upp úr?

Bæði lið dreifðu mörkunum bróðurlega milli sín og leikmanna en Tumi Steinn hélt sínum mönnum inni í leiknum þegar á reyndi, skoraði 8 mörk. Adam Haukur Baumruk var markahæstur hjá Haukum með 7 mörk.

Grétar Ari Guðjónsson í marki Hauka var flottur og varði 13 skot. Markmenn Aftureldingar vörðu samtals 12 skot

Hvað gerist næst?

Haukar halda toppsætinu og auka forskotið um tvö stig. Þeir mæta Íslandsmeisturum ÍBV í Schenker-höllinni eftir 10 daga í risa leik. Afturelding fer í Safamýrina og spilar við Framara sem sitja í næstneðsta sæti en stutt í næstu lið.

Einar Andri og hans hundtryggi aðstoðarmaður, Ásgeir Jónsson.vísir/bára
Einar Andri: Óánægður með varnarleikinn

Einar Andri Einarsson, var svekktur með tapið eftir leik. Hans menn voru með bakið upp við vegg en voru nálægt því að koma til baka gegn Haukum.

„Ég er svekktur og óánægður með tapið. Ég er óánægður með varnarleikinn í allan dag. Sóknarleikurinn var góður og ég er ánægður með að við keyrðum á þetta allan seinni hálfleikinn sérstaklega,“ sagði Einar Andri í leikslok.

„Við náðum að setja þetta niður í tvö mörk og það munaði litlu að við náðum að gera meiri spennu úr þessu.“

„Það hefði allt þurft að ganga upp hjá okkur, Haukar voru ferskari frá byrjun. Mér fannst við máttum okkar lítils fyrstu 15 mínúturnar. Ég var mjög svekktur með varnarleikinn en að sama skapi er ég ánægður með sóknina. Við skorum 31 mark og við viljum að það dugi til þess að vinna.“

Mönnum var heitt í hamsi og þegar munurinn var lítill vildu heimamenn fá meira en dómararnir gáfu þeim. Einar og Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, áttu þá gott spjall eftir leik en Einar gerði lítið úr því.

„Við vorum bara að tala um leikinn. Dómararnir voru bara fínir og við vorum ekki nógu góðir.“

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka.vísir/ernir
Gunnar: Frábærir fyrstu 45 mínúturnar

Gunnar Magnússon þurfti að horfa upp á öruggan sigur detta niður í háspennuleik á síðustu mínútum leiksins.

„Ég er ánægður með fyrri hlutann í báðum hálfleikum. Þetta er fjórði leikurinn á 12 dögum, það er mikið álag á okkur og virkilega sterkt að fara héðan með 2 stig.“

Haukar fá nú 10 daga hvíld áður en þeir mæta ÍBV en það máttu sjá þreytumerki í liðinu þegar leið á leikinn.

„Við vissum að þeir kæmu með áhlaup, við vorum að klúðra dauðafærum og þeir gengu á lagið en við stóðumst þetta og kláruðum þetta. Það er ég ánægður með en við vorum auðvitað orðnir svolítið þreyttir, það verður að viðurkennast.“

„Fyrstu 45 mínúturnar vorum við frábærir, flott sókn og markvarsla. Góð hraðaupphlaup líka. Það er okkar stíll og að keyra hratt og nota hraðaupphlaupin og mjög sterkt að koma í Mosfellsbæinn og taka tvö stig.“

Tumi Steinn Rúnarssonvísir/daníel
Tumi Steinn: Maður segir ekkert við dómara

Tumi Steinn Rúnarsson, leikmaður Aftureldingar gat ekki komið í veg fyrir tap í kvöld en lið hans átti erfitt uppdráttar í kvöld.

„Við bara mættum ekki til leiks, ekki fyrr en það voru 20 mínútur eftir, hausinn var ekki rétt skrúfaður á,“

„Okkur vantar tvo lykilmenn, Bödda og Arnór og þeirra var sárt saknað,“ sagði Tumi.

„Við vorum ekki rétt gíraðir og ég veit ekki hvað gerðist. Menn þurfa að líta í eigin barm og kíkja á hvað klikkaði,“

Vörnin var vandamál í kvöld.

„Ég veit ekki hvað ég á að segja. Vörnin var ekkert að halda eins og hún hefur verið að gera í síðustu leikjum, eins og Böddi hafi límt þetta saman.“

Þá fengu heimamenn enga greiða hjá dómurum heldur.

„Maður segir ekkert við dómara, þeir gera sitt besta og það er ekkert hægt að segja. Við fórum bara maður á mann, það virkaði ágætlega og þeir fóru að hika og fóru að taka skref sem var ekki dæmt á. Mér fannst það svolítið að skrýtið. En bara rétt eins og við getum dottið niður, þá geta þeir líka dottið niður.“

Engu að síður var margt jákvætt í leik liðsins í kvöld.

„Við skoruðum 31 mörk og Bjöggi kom frábær inn, það er fullt jákvætt úr þessum leik en erfitt að segja svona strax eftir leik.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira