Körfubolti

Elvar Már: Hrikalega góður sigur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elvar Már spilaði sinn fyrsta leik með Njarðvík í langan tíma í kvöld.
Elvar Már spilaði sinn fyrsta leik með Njarðvík í langan tíma í kvöld. Vísir/Vilhelm
„Það er skemmtilegast að spila fyrir sitt heimafélag og hjartað slær fastast þegar maður spilar í græna búningnum, sagði Elvar Már Friðriksson eftir sigur Njarðvíkinga í Grindavík í kvöld en hann var að leika sinn fyrsta leik með liðinu eftir að hafa snúið aftur heim á dögunum.

"Við erum að koma á erfiðan útivöll og sigra, þar sem mér fannst við smá ryðgaðir og eiga eitthvað inni. Grindavík á líka helling inni og hafa verið vaxandi í síðustu leikjum þannig að þetta var hrikalega góður sigur." 

Elvar Már var aðeins búinn að mæta á tvær æfingar fyrir leikinn. Þrátt fyrir það lék hann í rúmar 23 mínútur, skoraði 15 stig og gaf 5 stoðsendingar.

„Mér fannst við spila ágætlega, sérstaklega varnarlega. Við ætluðum að einbeita okkur að vörninni í dag og fyrir mig, sem er bara búinn að mæta á tvær æfingar, er ekkert nýtt að spila vörn. Við pressuðum þá og það sást í lokin að þeir voru orðnir þreyttir. Þeir fóru að brjóta og við fengum helling af stigum af vítalínunni í lokin," sagði Elvar og bætti við að munurinn á breidd liðanna hefði skipt máli þegar Njarðvíkingar undirbjuggu sig fyrir leikinn.

„Heldur betur og þess vegna vildum spila á svona háu tempó. Við skiptum hratt, erum með tvo eða fleiri í öllum stöðum sem geta spilað og það hjálpaði okkur helling í dag."

Margir vilja meina að Njarðvíkingar séu orðnir Íslandsmeistaraefni eftir að hafa fengið Elvar til liðs við sig en hann er pollrólegur.

„Við einbeitum okkur alltaf á næsta leik sem ég held að sé Stjarnan. Það er eitt af toppliðunum þannig að það verður hörkuleikur. Þeir eru hrikalega vel mannaðir eins og við þannig að það verður eflaust hátt tempó í þeim leik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×